26.6.2020

Föstudagspistill formanns 26.6.2020

Vikan sem nú er að líða hófst á formannafundi ASÍ þar sem staðan haustsins var rædd og farið yfir þau mál sem eru fyrirferðamest á vinnumarkaði. Stóra verkefnið sem bíður eftir okkur í haust er yfirlýsinga stjórnvalda í tengslum við lífskjarasamninginn. Það er ekki boðlegt að ríkið telji sig geta lofað einhverju við gerð kjarasamninga en ekki staðið við það í framhaldinu. Einnig var rætt um erfiða stöðu ferðaþjónstunnar og ótti við mikið atvinnuleysi í haust.
Mál Berglínar GK 300 hefur verið áberandi að undanförnu. Það er óþolondi að útgerðamenn telji sig ekki þurfa að fara eftir kjarasamningum. Áhöfn skipsins var með gildandi samning um verð á rækju sem ekki átti að standa við. Útgerðin hafði ekki skilað samningnum inn til Verðlagsstofu enda hefur ríkið ekkert eftirlit með því hvort samningum á milli útgerða og áhafna sé skilað inn til sín. Það er dapurlegt að hér er verið að setja lög sem engin fer eftir enda virðist ríkið lítið eftirlit hafa með útgerðarmönnum hér á landi.
Vikan gekk annars sinn vana gang. Nær allir orlofskostir félagsins er í útleigu og er töluverð vinna í kringum þá bæði á skrifstofu félagsins og hjá umsjónarmönnum hringinn í kringum landið. Unnið er að ýta á gerð kjarasamninga þar sem samningar eru enn lausir.
Við á skrifstofunni finnum þó að sumarfrí eru að skella á eða eru byrjuð á mörgum stöðum, það má segja að ákveðin mál fari þá ávalt í hægagang en þá gefst líka tími í að vinna önnur mál sem hafa lent neðst í bunkanum hjá okkur.
Ég vona að þið njótið sumarsins, ég hef ákveðið að taka frí frá föstudagspistlum í júlí. Ég mun byrja aftur að skrifa um starf VM eftir verslunarmannahelgi fyrir þá sem hafa gaman af að fylgjast með starfi okkar.

Ég óska ykkur góðs og gleðilegs sumars
Guðm Helgi formaður VM.