19.6.2020

Föstudagspistill 19.06.2020

Eins og komið hefur fram í síðustu pistlum hjá mér þá höfum við hér á skrifstofunni fundið fyrir auknum þunga í einstaklingsmálum. Það er ótrúlegt hvað sumir atvinnurekendur virðast eiga erfitt að fara eftir kjarasamningum og er það þá sama hvort það á við um land eða sjó.  Vil ég hvetja alla til að kynna sér rétt sinn ef þeir telja á sér brotið.

Í síðustu viku áttum við fund hjá sáttasemjara ásamt Félagi skipstjórnarmanna vegna fyrirtækja í fiskeldi. Lítið þokaðist í þeim málum en annar fundur boðaður í næstu viku. Það er ótrúlegt að ný og vaxandi atvinnugrein þurfi ekki að uppfylla þær kröfur að gera kjarasamning við starfsfólk sitt, einungis vinnustaðasamning þar sem ekki eru virt lágmarkskjör á vinnumarkaði hvað laun og hvíldartíma varðar.

Þá voru aðalfundir lífeyrissjóðanna Gildis og Birtu haldnir í vikunni og áður fundað í fulltrúaráðum þeirra. Hjá Gildi hætti okkar fulltrúi, Guðmundur Ragnarson  í stjórn og hans sæti tók Árni Bjarnason formaður Félags skipstjórnarmanna. Það er samkomulag hjá Gildi að VM og FS skipti á milli sín stjórnarsæti og var nú komið að Félagi skipstjórnarmanna. Það er mjög ánægjulegt að sjá árangur sjóðanna á síðasta ári, Birta með raunávöxtun yfir 11%  og Gildi með raunávöxtun yfir 12%. Ég vil hvetja ykkur til þess að skoða ársskýrslur sjóðanna inná heimasíðum þeirra. Þær eru alltaf að verða betri og ítarlegri.

Vil ég sérstaklega benda á erindi Vigfúsar Ásgeirssonar  í glærukynningunni hjá Gildi.  Þar kemur fram að  uppruna lífeyris megi rekja til Ágústusar keisara í Rómaveldi, en hann ákvað eftirlaun fyrir hermenn Rómaveldis þar sem þeir fengu eingreiðslu eftir 20 ára herþjónustu upp á 13-föld árslaun.  Var fyrst greitt eftir þessu árið 13 fyrir Krist. 

Nú eru landsmenn byrjaðir að taka út sumarleyfin sín og í þessu árferði að ferðast innanlands. Hvet alla til þess að fara varlega og njóta.

Ég óska svo ykkur öllum góðrar helgar

Guðm. Helgi formaður VM