5.6.2020

Föstudagspistill 05.06.2020

Ég vil byrja á að óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra  til hamingju með sjómannadaginn sem er núna á sunnudaginn. Eins og flestir vita þá munu mest öll hátíðarhöld falla niður í ár vegna ástandsins í samfélaginu.Ég vill minna á að sjómannadagurinn er lögbundinn frídagur.

Í Alþýðublaðinu árið 1938 var skrifað um fyrsta sjómannadaginn „Fyrsti sjómannadagurinn varð glæsilegur hátíðisdagur, sem hertók borgina – og alla íbúa hennar“ segir í inngangi fréttarinnar seinna í greininni er sagt frá fylkingu sjómanna sem gekk frá Stýrimannaskólanum og að Leifstyttunni „þegar kl. 12:30 byrjuðu sjómenn að safnast saman við Stýrimannaskólann. Var þeim þar raðað í fylkingar undir fána samtaka sinna. Fremstir komu skipstjórar, síðan stýrimenn, vélstjórar, hásetar, loftskeytamenn, matsveinar og veitingaþjónar“.

Það er gaman að lesa um samstöðuna þarna á fyrsta sjómannadeginum sem var haldinn hátíðlegur, við sem höfum starfað til sjós vitum að við treystum á hvorn annan um borð í skipunum. Við treystum skipstjórum og stýrimönnum til að koma okkur öruggum í höfn, við treystum á að vélstjórarnir haldi skipinu og búnaðinum gangandi og að hásetanir vinni aflann.  Núna er komið að því að starfsstéttinar standi jafn vel saman í komandi kjarabaráttu. Samningar sjómanna eru lausir, ýmislegt þarf að laga í kjörum þeirra og er ég sannfærður um að ef við komum sem ein heild að samningaborðinu mun okkur takast betur til en ef við mætum sundraðir.

Ég vona að sjómenn njóti dagsins í faðmi fjölskyldu og vina, þetta er ykkar dagur.

Önnur verkefni félagsins ganga sinn vanagang. Í dag er fundur í kjaradeilu VM og samningarnefndar ríkisins vegna vélstjóra hjá Hafrannsóknarstofnun. Einnig er verið að klára að vinna nokkra vinnustaðasamninga og láta félagsmenn kjósa um þá í þessari viku. Við á skrifstofunni finnum fyrir að aukin þungi er í einstaklingsmálum á kjaradeild félagsins.

Það er mikið ánægjuefni að samkvæmt tölum frá Vinnumálastofnun er mjög lítið atvinnuleysi á meðal félagsmanna VM. Það sýnir og sannar að sú menntun sem félagsmenn VM hafa og þau störf sem þau vinna eru mikilvæg og standa af sér bakslag í efnahagi landsins.

Í lok síðustu viku var greitt úr sjóðum félagsins til félagsmanna okkar Greiðslur úr sjúkrasjóði fyrir maí voru tæpar 14 milljónir. Greiðslur úr fræðslusjóði VM í maí var tæp 1 milljón. 

Ég hvet menn til þess að athuga rétt sinn í sjóðnum, þetta er ykkar sjóður og verkefni félagsins er að þjónusta ykkur í kringum hann.

Ég óska ykkur góðra helgi.

Guðm. Helgi formaður VM