22.5.2020

Pistill formanns 22.05.2020

Í vikunni opnuðum við aftur skrifstofu félagsins í kjölfar þess að smitum vegna covid-19 hefur fækkað stórlega í samfélaginu. Við þurfum þó að fara varlega áfram og biðjum því alla okkar gesti að virða 2ja metra regluna í móttökunni og fara eftir reglum sóttvarnalæknis um handþvott  og handspritt.

Eins og komið hefur fram í undanförnum pistlum þá hefur verið mikið að gera í vinnustaðasamningum og raunstyttingu vinnuvikunnar. Þegar er verið að stytta vinnuvikuna niður í 36 stundir þarf oftast að klæðskerasníða hvern og einn vinnustað að starfseminni á hverjum stað fyrir sig. Nú í vikunni bættist við enn einn vinnustaðurinn og áttum við ánægjulegan fund með okkar mönnum hjá MS Selfossi á Selfossi í vikunni.

Þá sat ég miðstjórnar fund hjá ASÍ, en þar er ég varamaður. Þar bar hæðst deila Flugfreyjufélag Íslands (FFÍ) við Icelandair. Afstaða Icelandair í þeim árangurslausu samningaviðræðum sem staðið hafa yfir milli aðila síðustu vikur er ótrúleg. Sú hótun Icelandair að félagið ætli að skoða „aðra kosti“ en þann að semja við FFÍ, er ósvifin og fordæmalaus. Við hjá VM lýsum yfir fullum stuðningi við baráttu Flugfreyjufélag Íslands við að verja sín kjör. Þá var einnig kynning á starfsemi Bjargs íbúðafélags, farið yfir starfsemi félagsins og reikninga. Ég hvet félagsmenn okkar að kynna sér starfsemi félagsins inn á heimasíðu þeirra bjargibudafelag.is.

Þá vil ég einnig nefna samning sem gerður var við Íslandshótel. VM býður félagsmönnum sínum gistimiða á 7 Fosshótelum hringinn í kringum landið. Verð fyrir gistimiða er kr. 8.500 fyrir tveggja manna herbergi. Greitt er kr. 4.000 aukalega ef gist er á fjögurra stjörnu hóteli. Hvet félagsmenn til að kynna sér þennan kost.

 

 

Góða helgi

Guðm. Helgi formaður VM