8.5.2020

Föstudagspistill formanns 8. maí 2020

Það eru skrýtnir tímar í samfélaginu en þrátt fyrir það þurftum við að finna leið til að halda aðalfund VM. Var ákveðið að halda aðalfund fimmtudaginn 30. apríl 2019 á rafrænan máta.  Samkvæmt lögum VM á að halda aðalfund VM í síðasta lagi 30. apríl ár hvert og einnig á að kynna úrslit stjórnakjörs á aðalfundi enda kjörtímabil stjórnar á enda runnið. Vildum við uppfylla þessa liði laganna. Svo að aðrir liðir aðalfundarins séu gerðir á löglegan hátt var ákveðið að fresta þeim þangað til samkomubanni líkur. Aðeins voru tvö mál á dagskrá að tilkynna úrslit í stjórnarkjöri og fresta öllum öðrum málum. Haldin verður framhaldsaðalfundur í haust þar sem önnur mál verða kláruð.

Ég þakka fráfarandi stjórnarmönnum fyrir gott starf fyrir félagið og bíð nýja stjórnarmenn velkomna til starfa. Það var ánægjulegt að sjá unga menn koma nýja inn í stjórn félagsins. Það er langt síðan að meðalaldur stjórnar VM hefur verið svona lágur.

Að kjarasamningum er það að frétta að félagið skrifaði undir samning við Kerfóðrun 28 apríl. Kosið var um samninginn daginn eftir. 79.31% félagsmanna samþykktu samninginn, 17,24% voru á móti og 3,45% skiluðu auðu. Á tímum sem þessum taka hlutir aðeins lengri tíma en venjulega. Samningaviðræður við Orkubú Vestfjarða og Hafrannsóknarstofnun silast áfram, það er von okkar að við getum klárað þessa samninga sem allra fyrst.

Ég get ekki setið á mér að minnast á þau fyrirtæki sem misnota úrræði stjórnvalda á tímum sem þessum, það er óþolandi og siðlaust að horfa á fyrirtæki sem eru að greiða sínum eigendum arð en á sama tíma að þiggja bætur frá ríkinu eða eru að nýta sér úrræði stjórnvalda þrátt fyrir að þurfa þess ekki. Ríkissjóður er okkar sameiginlegi sjóður og þá á engin að komast upp með það að misnota það fé sem þar er. Það er ljóst að stjórnvöld verða mjög að vanda sig í allri lagasetningu því að ef glopur eru í lögum þá munu stjórnendur fyrirtækja reyna að nýta sér þær. Það er dapurlegt að sjá fólk segja í annari setningunni að við séum í þessu saman en finnast svo í lagi að misnota kerfið í næstu setningu.

 

Ég óska ykkur góðrar helgi.

Guðm. Helgi formaður VM