29.5.2020

Föstudagspistill formanns 29.5.2020

Þegar skrifað var undir kjarasamning í maí 2019 var eitt af stóru málum samningins stytting vinnuvikunnar. Við erum stolt af því að samkvæmt þeim vinnustaðasamningum sem við erum búin að koma að þá verður búið að stytta vinnutímann hjá um 35% félagsmanna VM sem starfa í landi. Það er heimild að semja um styttinguna til 1. janúar 2022 en eftir það getur launafólk stytt vinnuvikuna einhliða í 36 klst og 15 mín á viku.

Viljum við minna á að hægt er að kynna sér þetta betur á heimasíðu VM en einnig er gott að hringja á skrifstofu félagsins og fá leiðsögn kjarasviðs félagsins.

Einnig vil ég minna á að greiða á orlofsuppbót með maí launum, í síðasta lagi 1. júní ár hvert. Upphæðin er 51.000 kr. fyrir þá sem starfa á almennum kjarasamning VM og SA. Upphæð orlofsuppbótar í öðrum kjarasamningum er hægt að nálgast á heimasíðu félagsins.

Sumarið er í fullum undirbúningi hjá félaginu. Verið er að koma tjaldsvæðinu á Laugarvatni í stand og er það von okkar að við getum opnað það um miðjan júní. Einnig er verið að gera orlofshúsin okkar klár fyrir sumarið.

Í vor var mikið af fundum frestað vegna Covid veirunnar, verið er að vinna upp þá fundi núna t.d hjá lífeyrissjóðunum þar sem bæði fulltrúaráðsfundir og aðalfundir Birtu og Gildi eru á dagskrá um þessar mundir. Aðalfundir sjóðanna verða um miðjan júní og verða auglýstir síðar.

Nýtt skiptaverðmætishlutfall tekur gildi 1. júní og skiptaverðmætishlutfall á að fara í 77,5% á milli skyldra aðila. Svo hátt hlutfall höfum við ekki séð á þessari öld á árinu 2001 fór það hæðst í 76% en aldrei hefur það farið svona hátt. Við biðjum okkar menn að fylgjast með á næstu uppgjörum og láta okkur vita ef þeir telja að brotið hafi verið á þeim.

Vonandi fara allir glaðir inn í helgina.

Guðm. Helgi formaður VM