15.5.2020

Föstudagspistill 15. maí

Með hækkandi sól og rýmkun á samkomubanni verð ég var við aukna bjartsýni í samfélaginu sem er auðvitað gott. Við verðum þó áfram að vera skynsöm og hlusta á yfirvöld. Aðeins fjögur virk smit hafa greinst í maí, ekki er hægt að sjá annað en að við séum á réttri leið.

VM kláraði einn kjarasamning í komandi viku en það var við Orkubú Vestjarða. Búið er að kjósa um hann og var hann samþykktur með öllum greiddum atkvæðum. Það er gott að ná að klára þennan samning og vonandi fer að ganga hraðar með aðra samninga sem enn eru lausir.

Ný stjórn VM fundaði saman í fyrsta skipti í vikunni. Það var gott að hitta stjórnarmenn bæði nýja og gamla. Mikið púður fer í verkefni orlofssjóðsins þessa dagana enda verið að undirbúa sumarið. Við finnum fyrir mikilli ásókn í orlofshússin okkar fyrir sumarið auk þess sem við stefnum á að bjóða upp á hótelmiða og auðvitað opnum við tjaldstæðið um leið og svæðið er klárt innan þeirra tilmæla sem yfirvöld setja um svæði sem þessi.

Greiðslur úr sjúkrasjóði fyrir apríl voru lægri en undafarna mánuði eða rúmlega 14 milljónir. Ég hvet menn til þess að athuga rétt sinn í sjóðnum, þetta er ykkar sjóður og verkefni félagsins er að þjónusta ykkur í kringum hann.

Góða helgi og njótið vorsins

Guðm. Helgi formaður VM