3.4.2020

Föstudagspistill formanns 03.04.2020

Covidfaraldurinn, samkomubann og hlutastarfaleiðin eru annað hvort orð sem við höfum ekki heyrt áður eða að minnsta kosti ekki notað í daglegu tali.

Hjá VM hafa hlutinir snúist mikið um þá hluti sem snúa að faraldrinum í þessari viku. Ákveðið var að loka sumarhúsum VM frá næsta mánudegi til 4 maí eftir að tilmæli frá yfirvöldum komu um það, Þetta verður endurskoðað ef samkomubann breytist. Starfsfólk VM vinnur nú í því að hafa samband við þá sem áttu pantað sumarhús hjá okkur til að endurgreiða félagsmönnum okkar.

Helstu verkefni kjaradeildar félagsins í þessari viku var að svara fyrirspurnum félagsmanna okkar um hin ýmsu mál. Mörg fyrirtæki eru að setja upp vaktir á meðan á faraldrinum stendur, önnur eru að setja starfsfólk sitt í hlutastörf og einhver fyrirtæki eru að minnka við sig í mannskap. Við hvetjum alla félagsmenn til þess að hafa samband við kjaradeild félagsins ef þá grunar að ekki sé allt eins og það á að vera.

Einnig er verið að ýta áfram málum þar sem lausir eru kjarasamningar, það verður þó að viðurkennast að hlutirnir ganga hægar í þessu ástandi en venjulega.

Það jákvæða er að enn týnast inn fyrirtæki sem eru að vinna í eða eru að klára samninga um styttingu vinnuvikunnar. Yfir þessu gleðjumst við og sjáum að stór hluti félagsmanna VM mun nýta sér vinnutímastyttinguna sem samið var um í kjarasamningum strax á þessu ári.

Fundað var í úrskurðarnefnd um fiskverð í dag föstudag. Niðurstaða fundarins var sú að slægður þorskur lækkar um 5,6%, óslægður þorskur lækkar um 9,2%, slægð ýsa lækkar um 7,8%, óslægð ýsa helst óbreytt, karfi helst óbreyttur og ufsi hækkar um 2,1%

Í vikunni var greitt út úr sjóðum félagsins vegna mars. Alls voru greiddir 139 styrkir út úr sjúkrasjóði VM og þar af voru 28 félagsmenn á sjúkradagpeningum. Í mars voru greiddar tæpar 17 milljónir í sjúkradagpeninga frá félaginu vegna veikinda sjóðsfélaga, maka sjóðsfélaga eða annars sem kom upp á í lífi fólks. Heildarupphæð styrkja úr sjúkrasjóðnum voru rúmlega 21 milljón í mars. Ég vil minna alla félagsmenn VM að kynna sér reglur sjóðsins. Þetta er sjóðurinn ykkar sem á að hjálpa ykkur þegar áföll verða í lífinu.   

Einnig var greitt úr fræðslusjóði VM. Alls voru greiddir 23 styrkir úr fræðslusjóði í mars og fengu félagsmenn styrki þar fyrir rétt tæpar 2 milljónir.

Ég vil hvetja menn til þess að kynna sér fræðsludagskrá Iðunnar fræðsluseturs og minna á að hægt er að sækja um styrki í fræðslusjóð VM til þess að greiða fyrir námskeiðisgjöld þar.

Ég óska félagsmönnum VM góðrar helgi. Kynnum okkur reglur um samkomubann og annað sem kemur frá sóttvarnalækni og hlýðum Víði!

Guðmundur Helgi formaður VM.