24.4.2020

Föstudagspistill 24.4.2020

Ég vil byrja á óska öllum félagsmönnum VM sem og öðrum gleðilegs sumars. Með hækkandi sól náum við vonandi að líta björtum augum fram á veginn. Svo virðist sem kór­ónu­veirufaraldurinn sé í rénum hjá okkur og vonandi fer þjóðfélagið smá saman aftur í sitt eðlilega horf.

Í þessum fordæmalausu aðstæðum höfum við öll þurft að ganga í gegnum ákveðnar þrengingar, mismiklar. Ríkisstjórnin hefur verið að koma með mótvægisaðgerðir og sitt sýnist hverjum um þær. Ég ætla ekki að fara djúpt í það en verð þó að segja að sá einbeitti vilji SA að mistúlka hlutstarfaleiðina og ráðleggja fyrirtækjum að setja fólk í 25% starfshlutfall í uppsagnarfresti sýnir ákveðið hugarfar.

Eins og hefur komið fram í síðustu pistlum erum við hjá VM að ýta á eftir þeim málum sem eru í gangi. Við erum með nokkra kjarasamninga lausa en vonandi náum við að klára þá sem fyrst. Teljum við að sumir þeirra séu langt komnir og muni klárast á næstu vikum. Einnig höfum við verið að aðstoða okkar félagsmenn og fyrirtæki með að útfæra vinnutíma styttinguna að undanförnu.

Þá vil ég líka nefna olíuverðið og skiptaverðmætishlutfallið hjá fiskiskipasjómönnum. Verið er að vinna í þeim tölum, en gera má ráð fyrir því að lækkun olíuverðs að undanförnu séu jákvæðar fréttir fyrir sjómenn og kjör þeirra.

Á stjórnarfundi í síðustu viku var ákveðið að halda aðalfund félagsins rafrænt á fimmtudaginn 30. apríl. Þar verða aðeins tvö mál á dagskrá, úrslit í stjórnarkjöri kynnt og ný stjórn tekur við og svo frestun aðalfundar. Öðrum málum verður svo frestað þar til hægt verður að halda hefðbundin aðalfund til að uppfylla öll skilyrði félagsins um málfrelsi og kosningar. Auglýsingu um aðalfundinn má sjá á heimasíðu félagsins og einnig kemur linkur inn á heimasíðu félagsins fyrir þá sem vilja fylgjast með aðalfundinum.  

Að lokum vil ég óska ykkur aftur gleðilegs sumars og góðrar helgi.

Guðm. Helgi formaður VM.