20.3.2020

Föstudagspistill formanns 20.03.2020

Þau ánægjulegu tíðindi gerðust í vikunni að skrifað var undir kjarasamning við Ísal, kynningarefni hefur verið sent út og kynningafundir verða í næstu viku. Það er gleðilegt að samningur sé í höfn þarna en umhugsunarvert er að boða þurfti til átaka til þess að fá fyrirtækið til að skrifa undir samning sem var tilbúinn í lok janúar. Tel ég að sú mikla og góða samstaða allra starfsmanna ÍSAL hafi skilað þessum árangri.     

Stóra málið þessa vikuna er auðvitað málefnin í kringum Covid-19 veiruna. Félagið fylgist vel með á vetfangi ASÍ hvaða aðgerðir ríkið ætlar að koma með til þess að létta undir með launafólki og fyrirtækjum í landinu. Við munum birta á heimasíðu okkar og senda á okkar félagsmenn hvernig þær útfærslur verða.  Það mikilvægasta er svo að allir hugi að heilsunni, hún er það mikilvægasta sem við eigum. Skrifstofa VM hefur hvatt félagsmenn að nýta sér þjónustu í gegnum tölvupóst, rafrænar umsóknagáttir og síma. Það mikilvægasta fyrir okkar félagsmenn er að við séum til staðar fyrir þá og að greiddir séu út t.d sjúkradagpeningar um mánaðarmótin. Það er vegna þessa sem við förum í þær varrúðar ráðstafanir að takmarka eins og hægt er komur á skrifstofuna.

Í vikunni fór fram stjórnarfundur félagsins, þar var ákveðið að fresta aðalfundi félagsins sem var auglýstur 27 mars. Verður hann haldinn við fyrsta tækifæri þegar samkomubanni hefur verið aflétt.

Ég vil aftur minna á að kosning í stjórn félagsins er í fullum gangi á heimasíðu félagsins. Hægt er að kynna sér frambjóðendur á vm.is. Kosningunni mun ljúka á áður auglýstum tíma 24. mars.

Fjölmörg fyrirtæki eru búin eða eru á lokametrunum að semja um vinnutímastyttingu við sína félagsmenn, auðvitað er það þannig að þegar áföll eins og það sem samfélagið er að fara í gegnum núna koma upp þá taka hlutinir aðeins lengri tíma, það eru þó mörg fyrirtæki sem eru að halda sínu striki.

Að lokum vil ég ítreka passið upp á heilsuna og farið eftir ráðleggingum stjórnvalda.

Ég óska ykkur góðrar helgi

Guðm. Helgi formaður VM