27.3.2020

Föstudagspistill 27. mars 2020

Það er kannski að bera í bakkafullann lækinn að fara að tala um fordæmalausar aðstæður.  Nú er komið samkomubann og er miðað við að ekki séu haldnar fjölmennari samkomur en 20 manna. Við eigum auðvitað öll að virða tilmæli landlæknis.

Til þess að tryggja sem best að halda starfsemi VM erum við búin að skipta hópnum í tvennt og skiptumst á að vera á skrifstofunni og vinna að heiman. Þá var tekin ákvörðun frá og með deginum í dag að loka skrifstofunni fyrir utanaðkomandi. Óskum við eftir að félagsmenn noti sem mest rafræna þjónustu, tölvupósta og í gegnum síma. Það er samt hægt að mæta og fylla út umsóknir fyrir sjóði félagsins. Standur með umsóknareyðublöðum er fyrir utan skrifstofuna sem er hægt að fylla út og afhenda með fylgigögnum ef bankað er hjá okkur á skrifstofutíma.

Það er mikið fundað til þess að reyna að bregðast við þeim aðstæðum sem nú eru uppi. Takmarkið er að lágmarka tjónið, bæði heilsufars- og efnahagslega. Er ríkisstjórnin búinn að kynna ýmis úrræði sem vonandi hjálpar okkur yfir erfiðasta hjallann.

Það svíður að það skuli vera fyrirtæki sem ætla að misnota ástandið. Eitt úrræði sem ríkið býður uppá eru hlutastörf, svo kallað minnkað starfshlutfall. Starfshlutfall er þá fært niður og ríkið greiðir mismuninn. Það virðist vera að koma í ljós að fyrirtæki ætli að notfæra sér þetta með því að færa starfsfólk niður í starfshlutfalli en láta það samt halda áfram að vinna fulla vinnu. Þetta verður ekki liðið og bið ég félagsmenn okkar að hafa samband við félagið ef þeir eru beðnir eða skyldaðir í eitthvað ólöglegt.

Sem betur fer eru ekki bara neikvæðar fréttir. Í  dag voru kynntar niðurstöður í kosningu um kjarasamning við Ísal. Kosningin for þannig að 86% þeirra sem tóku þátt samþykktu samninginn. Er það mjög gleðilegt að það skuli hafa tekist að fá samning og afturvirkar greiðslur frá því að síðasti samningur rann út. Mín skoðun er sú að samningur eigi ávallt að taka við af samningi.

Þá vil ég að lokum hrósa þríeykinu okkar Ölmu, Þórólfi og Víði fyrir frábær störf og að standa fyrir okkur vaktina. Hlustum og hlýðum okkar góðu sérfræðingum. 

Ég óska ykkur góðrar helgi.

Guðm. Helgi formaður VM