13.3.2020

Föstudagspistill 13.03.2020

Ástandið í þjóðfélaginu er skrýtið þessa dagana og ekki annað hægt að segja en mikill tími starfsmanna VM fari í að endurskipuleggja aðeins hlutina vegna Covid 19 veirunnar. Það mikilvægasta er fyrir launafólk fyrir utan heilsuna auðvitað er að missa ekki lífsviðurværi sitt og að heilbrigðis og félagslegukerfin virka í ástandi sem þessu. Verkalýðshreyfingin mun þrýsta á það og fundar nú samninganefnd ASÍ reglulega til þess að gæta hagsmuna sinna félagsmanna.   

Atkvæðagreiðsla um verkföll í Ísal hefur staðið yfir síðustu daga og lauk í dag. Félagsmenn allra félaga samþykktu verkfallsboðun. Alls samþykktu 88,34% þeirra sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni verkfallsaðgerðir en 9,42% voru á móti. Hjá VM samþykktu 94,74% félagsmanna verkfall en 5,26% voru á móti. Þetta eru skýr skilaboð okkar félagsmanna.

VM og Orkubú Vestfjarða funduðu vegna kjarasamninga okkar manna þar. Sá fundur var góður og vonandi að hægt verði að klára þann samning á næstu 1-2 vikum. Einnig var fundað með Landhelgisgæslunni vegna okkar fólks þar og fundað með félagsmönnum okkar hjá Selfossveitum. Ég segi það enn einu sinni að sá tími sem við komumst útaf skrifstofunni til að hitta félagsmenn okkar er sá tími sem við lærum mest af hvernig félagsmenn okkar vilja að hlutirnir séu.

Miklar breytingar verða á almennum vinnumarkaði 1. apríl, upptaka virks vinnutíma, möguleiki á vinnutímastyttingu í 36 klst á viku og 18.000 kr. launahækkun. Mikið álag er á kjaradeild VM í augnablikinu vegna þessa, og verður eitthvað áfram. Það jákvæðasta er þó hvað mörg fyrirtæki eru að vinna í því að stytta vinnutímann hjá sér, og svo virðist vera að margir atvinnurekendur ætla að gera sína vinnustaði fjölskylduvænni og mannlegri. Við erum með þessu að hugsa til framtíðar.

Ég óska félagsmönnum VM góðrar helgi.

Guðmundur Helgi formaður VM.