6.3.2020

Föstudaggspistill 06.03.2020

Verkefnin eru næg eins og venjulega á skrifstofu félagsins. Stjórnarkjör er í gangi um þessar mundir og hvet ég alla félagsmenn til þess að kynna sér þá sem eru í framboði og kjósa svo til stjórnar. Hvet ég menn til að nýtta kosningarétt sinn. Kosning fer fram í gegnum vm.is.

Í vikunni fór út yfirlýsing frá þeim stéttarfélögum sem eiga kjarasamning í Ísal um að undirbúningur vegna atkvæðagreiðslu um verkfall fer fram í næstu viku. Nánari upplýsingar verða sendar á félagsmenn okkar um framhaldið.

Í vikunni fundaði ég bæði með báðum áhöfnum skipa Landhelgisgæslunnar. Kjarasamningur þeirra hefur verið laus í rétt tæpt ár, og því miður ganga hlutirnir hægt. Það var frábært að hitta áhafnir beggja skipanna.

Úrskurðarnefnd um fiskverð fundaði í vikunni, það sem helst er að frétta þar að ýsa bæði slægð og óslægð hækkar um 7% á milli mánaða. Litlar breytingar voru í öðrum tegendum.

Ég sat fund miðstjórnar ASÍ í vikunni þar sem stóra málið var réttindi launafólks þegar það veikist eða fer í sóttkví vegna veirunnar covid-19. Það er mikilvægt að fólk geti verið viss um að lenda ekki fyrir fjárhagstjóni vegna þess. Munum að virða tilmæli Landlæknis.

Keppst er við tímann á mörgum vinnustöðum þessa dagana um að finna útfærslur á styttingu vinnuvikunnar. Starfsfólk VM hefur farið víða til að kynna og hjálpa til við breytingar. Við hvetjum félagsmenn til þess að leita til félagsins til þess að fá hjálp við þetta, verkefnið getur verið flókið og því gott að fá sérfræðinga í verkið. Einnig eru iðnaðarmannafélögin að vinna saman kynningarefni sem fer í loftið á næstu dögum.

Eitt af þeim verkefnum sem er í hverri viku er fundur undanþágunefndar vegna vélstjóra á fiskiskipum. Það er að koma í ljós að breytingar á flotanum og fækkun vélstjóra á þeim skipum hefur orðið til þess að sífellt verður erfiðara að safna sjótíma til réttinda. Hef ég reynt að vinna eftir sömu vinnureglunni við veitingu undanþága. Það er samt þannig að það er útilokað fyrir VM að gefa undanþágu vegna starfs þegar við höfum mann með réttindi í stöðuna. Það er mín skoðun að það á að vera í forgangi að verja réttindi starfsstéttarinnar.

 Í vikunni var greitt út úr sjóðum félagsins vegna febrúar. Aldrei hefur jafn mikið verið greitt út úr sjúkrasjóði og í síðasta mánuði, alls voru greiddir 195 styrkir út úr sjúkrasjóði VM og þar af voru 47 félagsmenn á sjúkradagpeningum. Í febrúar voru greiddar rúmar 25 milljónir í sjúkradagpeninga frá félaginu vegna veikinda sjóðsfélaga, maka sjóðsfélaga eða annars sem kom upp á í lífi fólks. Heildarupphæð styrkja úr sjúkrasjóðnum voru rétt rúmlega 31 milljónir í febrúar. Ég vil minna alla félagsmenn VM að kynna sér reglur sjóðsins. Þetta er sjóðurinn ykkar sem á að hjálpa ykkur þegar áföll verða í lífinu.