14.2.2020

Föstudagspistill 14.2.2019

Stóra frétt vikunnar hjá félagsmönnum VM er án efa sú staða sem komin er upp í Ísal. Ég tek undir orð Reinolds Richter aðaltrúnaðarmann starfsmanna hjá Ísal í viðtali við Vísir í vikunni „Frá 24. janúar hefur legið fyrir kjarasamningur við tæplega 400 starfsmenn sem bæði Samtök atvinnulífsins og Isal hafi viljað skrifa undir en eigandinn Rio Tinto hafi ekki gefið grænt ljós á undirskrift samninganna..Það er okkar staða í dag. Þannig að þetta er tvöfalt áfall. Framtíðin virðist ekki vera björt og við fáum ekki þennan samning undirritaðan,“

Það er að mínu viti óboðlegt að fyrirtækið ætli að nota starfsfólk sitt í baráttu sinni við stjórnvöld um lægra orkuverð. Samningur er tilbúinn á borðinu, hann er í takt við lífskjarasamninginn, eina sem eftir er að gera er að skrifa undir hann. Það þarf að gerast sem allra fyrst.

Fundað var í kjaradeilu VM við SFS vegna vélstjóra á fiskiskpum þar sem útgerðamenn kynntu sínar kröfur vegna kjaradeilunar. Áður hafði VM lagt fram sínar kröfur.

Orlofsnefnd félagsins fundaði í vikunni en hún er að vinna 5 ára ætlun fyrir sjóðinn sem verður vonandi tilbúin fyrir aðalfund félagsins þann 27. mars.  

Kjaradeild félagsins fer víða þessa dagana til að hjálpa félagsmönnum VM og fyrirtækjum sem félagsmenn okkar vinna hjá að stytta vinnuvikuna. Það er ánægjulegt að sjá hversu mörg fyrirtæki eru að vinna í þessu núna og ætla að stytta vinnuvikuna frá 1. apríl n.k. Það er töluvert álag á félaginu í þessari vinnu, en það skemmtilega við þetta er hvað við hittum mikið af okkar félagsmönnum.  

Fyrsti fundur í kjaradeilu VM og Orkubú Vestfjarða var einnig í vikunni og gekk hann vel. Það er von VM að hægt verði að ganga frá samningi þar á nokkrum vikum.

Þingflokkur Samfylkingar bað um að koma í heimsókn til okkar í vikunni til þess að kynna sér stöðu kjarasamninga hjá félaginu. Tókum við á móti hluta þingflokksins og áttum ánægjulegan fund með þeim.

Í dag föstudag riðlaðist svo dagskráin nokkuð vegna veðurs. Funda átti með Ísal hjá ríkissáttasemjara í morgun en var því frestað þangað til seinna í dag. Ég vil benda félagsmönnum VM á að þegar vinna fellur niður líkt og í dag á mörgum stöðum er það meginreglan þegar ekki er um force major atvik að ræða að laun skulu greidd.  Ég minni einnig á að kjaradeild VM svarar og hjálpar til með fyrirspurninir líkt og þessa.

Mig langar að koma því á framfæri þegar mikið mæðir á félaginu eins og núna að ég er þakklátur fyrir það góða starfsfólk sem VM hefur.

Ég óska félagsmönnum VM góðrar helgi.

Guðmundur Helgi formaður VM.