3.1.2020

Gleðilegt ár góðir félagar

Síðustu dagar ársins eru alltaf annasamir hjá VM. Þá er farið um landið og fundað með félagsmönnum og er mesta áherslan lögð á kjarasamninga vélstjóra á fiskiskipum. Í ár var fundað á Höfn, Fjarðarbyggð, Ólafsvík, Akureyri, Reykjavík og á sama tíma með fjarfund á Ísafjörð. Þá var fundað einnig með fjarfundi til Vestmannaeyja þar sem flug féll niður til Eyja.

Ágætlega var mætt á fundina enda menn með sterkar skoðanir nú þegar kjarasamningar eru lausir hjá vélstjórum á fiskiskipum. Mest var talað um verðlagsmálin á þessum fundum og greinilegt að sjómenn eru orðnir þreyttir á ógegnsæi í verðlagsmálum á fiski.  

VM tekur undir gagnrýni Sjómannafélag Íslands og Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur þar sem þeir krefjast að fram fari ítarleg rannsókn á verðmyndun á makríl og vísa til athugunar Verðlagsstofu skiptaverðs þar sem kemur fram að hráefnisverð á makríl hafi verið að meðaltali 227% hærra í Noregi en á Íslandi á árunum 2012 til 2018.

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra segir í Morgunblaðinu í dag að nauðsynlegt og hollt sé fyrir alla hlutaðeigandi að fram fari athugun á þeim verðmun sem er á verði uppsjávarafla eftir ríkjum, þó ekki væri til annars en að eyða tortryggni og óvissu. Hann getur þess að ráðuneyti hans hafi hafið slíka vinnu í samstarfi við ríki við Norður Atlantshaf. Kristján Þór sagði einnig  „Ég vonast til að við getum fengið niðurstöður fljótlega á þessu ári. Vonandi mun hún leiða í ljós skýringar á þeim verðmun sem hefur verið í umræðunni hér á landi.“

Ég vil benda Kristjáni á að í skýrslu sem Fjármála- og efnahagsráðuneytið lét gera fyrir sig 2016 stendur m.a. eftirfarandi. „Til skamms tíma áttu mörg sjávarútvegsfyrirtæki dótturfyrirtæki á Kýpur sem nýttust þeim í skattalegu tilliti. Telja sumir að þessi dótturfélög íslensku sjávarfyrirtækjanna hafi einnig verið notuð við milliverðlagningu afurðanna.“ Svo virðist sem ekkert hafi verði gert með þessar tilgátur þá. Það er gott að stjórnvöld eru að vakna til lífsins og tek ég undir orð Kristjáns „þó ekki væri til annars en að eyða tortryggni og óvissu.“ Það eru ekki bara sjómenn sem eru undrandi á þessum verðmismun sem er í uppsjávarveiðum heldur landsmenn allir.

 Þó svo að makrílinn sé langmest áberandi þá er líka mjög mikill og óútskýrður munur á verðum á síld og kolmuna. Síðast vetur eru dæmi um það að íslenskar bræðslur greiddu erlendum skipum 40% hærra verð en íslenskum, erfitt er að útskýra þann verðmun enda skipin að veiða úr sömu torfu hlið við hlið.   

Það er nauðsynlegt að eyða allri tortryggni og auka gegnsæi í allri verðmyndun á fiski upp úr sjó ef á að takast að landa samningum í þeim kjaraviðræðum sem nú eru að byrja á milli sjómanna og SFS

Ég vil óska félagsmönnum VM góðs árs.

Guðmundur Helgi, formaður VM