31.1.2020

Föstudagspistill formanns 31.1.2020

Verkefnin vikunnar voru fjölbreytt eins og alltaf á skrifstofu VM. Þó að kjaramálin taki mestan okkar tíma og ég hef skrifað mest um þau í þessum föstudagspistlum þá eru önnur verkefni líka fyrirferðamikil.

Í þessari viku fundaði orlofsnefnd félagsins, undanþágunefnd og eins hefur skrifstofan verið í sambandi við fjölmarga trúnaðar- og samninganefndarmenn VM. Einnig fórum við í heimsókn í Laxfoss og höfum við þá heimsótt öll kaupskipin í flotanum á undanförnum mánuði. Allt er þetta gagnlegt, en mikilvægast í mínu starfi er tengingin við félagsmenn. Í dag var stjónarfundur í Iðunni fræðslusetri þar sem dagskrá vorannar var kynnt. Ég vil hvetja okkar félagsmenn að kynna sér hvað er í boði, þar sem tölur sýna að menn í okkar greinum eru ekki eins duglegir og í öðrum greinum að nýta sér þau námskeið sem í boði eru.  

Starfsfólk sjúkrasjóðs VM og fræðslusjóðs VM situr sveitt þessa síðustu daga mánaðarins svo hægt sé að greiða félagsmönnum út styrki.

Enn eru margar kjaradeilur í gangi, kjaradeilan í Ísal gengur því miður of hægt, ástæðan er kannski fyrst og fremst sú að það fólk sem situr í samninganefd Ísal hefur ekki fullt umboð og því þarf að leita erlendis til að fá það umboð. Ljóst er að félögin þurfa að fara hugsa næstu skref þar. Fundað var hjá samninganefnd ríkisins vegna vélstjóra á Hafró og með Landhelgisgæslunni vegna stofnannasamnings einnig er verið að undirbúa aðrar samningaviðræður t.d við Orkubú Vestfjarða, Faxaflóahafnir, Lanshelgisgæsluna, Selfossveitur og auðvitað SFS eins og ég sagði frá í síðasta pistli. Það er mín trú að því betur sem við undirbúum okkur því betri verður árangur okkar við samningaborðið.

Ég óska félagsmönnum VM góðrar helgi.

Guðmundur Helgi formaður VM.