24.1.2020

Föstudagspistill formanns 24.1.2020

Vikan hefur einkennst af miklu ati. Mikið var fundað vegna kjarasamninga og auðvitað alltaf verið að reyna að toga þau mál áfram. Fundað var stíft í kjaradeilu Ísal alla síðustu helgi og í vikunni. Fundað var með samninganefnd ríkisins vegna félagsmanna okkar hjá Hafró og einn fundur með Faxaflóahöfnum vegna kjarasamning þeirra.

Samningaviðræður VM og SFS vegna kjarasamnings vélstjóra á fiskiskipum hófst má segja formlega á þriðjudaginn þegar VM fór á fund SFS og lagði fram kröfugerð sína. Gagnsætt fiskverð er okkar aðal krafa, enda heyrum við það á skrifstofu VM á grasrót félagsins að hún er fyrir löngu búinn að fá upp í kok á þeim mismun sem virðist vera á milli landa hvað fiskverð varðar. VM fylgdi svo deilunni úr hlað með blaðaauglýsingum í dag þar sem félagið spyr hvort eðlilegur sé sá verðmunur sem birtist okkur alltof oft á milli innlendra og erlendra aðila. Spurningin er einföld, „er þetta eðlilegt?"

Stjórn félagsins fundaði á fimmtudaginn en hún hittist alltaf einu sinni í mánuði. Það var fróðlegur og kröftugur fundur. Starfsmenn VM hittu talsvert magn félagsmanna VM vegna vinnutímastyttingar, bæði úti á vinnustöðunum og á skrifstofu félagsins.

Það er ekki hægt að segja annað en að það hafi verið líf og fjör á skrifstofu félagsins í þessari viku. Í samningatörn eins og þessari leggja margir aðilar lóð á vogaskálina. Hvort sem það eru starfsmenn félagsins, trúnaðarmenn eða þeir sem gefa sig í það að vera í samninganefndum. Þessum aðilum vil ég þakka fyrir. Án félagsmanna væri ekkert félag og því megum við aldrei gleyma.   

Ég óska félagsmönnum VM góðrar helgi.

Guðmundur Helgi formaður VM.