17.1.2020

Föstudagspistill formanns 17.1.2020

Eins og ég hef áður sagt í pistli þá er gott að setjast yfir vikuna og sjá hverju félagið hefur áorkað í vikunni.

Á mánudaginn fórum við í heimsókn á verkstæði Eimskips til þess að kynna vinnutímastyttinguna. Þetta er eitt af stóru málum félagsins á nýju ári. Margir félagsmenn og fyrirtæki eru að hringja og koma á svæðið til þess að kynna sér vinnutímastyttinguna. Það er okkar tilfinning að vinnutímastyttingin munu ná yfir drjúgan hóp félagsmanna okkar strax 1. apríl 2020 og að bæði félagsmenn og stjórnendur fyrirtækja sjái hag sinn í að raun stytta vinnuvikuna.  Enda eins og hefur komið fram og kemur fram t.d í tölum Hagstofunnar og kjarakönnunar VM þá vinnur stór hluti félagsmanna VM mjög langan vinnudag. 

Fundað var bæði í vinnuhópum og hjá ríkissáttasemjara nokkuð stíft í kjaradeilu Ísal í vikunni. Að mínu viti er komið að ögurstundu í þeim viðræðum.

Í gær fimmtudag var fundað með samninganefnd ríkisins vegna félagsmanna VM hjá Hafró. Þetta var ágætur fundur og ljóst er að sú kjaradeila hreyfist áfram í rétta átt þó að stór mál eru eftir og að deilan hreyfist of hægt að okkar mati.

Einnig hélt áfram undirbúningur fyrir kjarasamning vélstjóra á sjó. Fyrsti fundur hefur verið boðaður í þeirri kjaradeilu á milli VM og SFS en sá fundur verður á þriðjudaginn í næstu viku.

Auk þess koma fjölmörg einstaklingsmál í hverri viku inn til VM. Við hvetjum félagsmenn VM til þess að hafa samband við okkur ef þið þurfið hjálp eða hafið spurningar um mál tengdum vinnumarkaði. Við erum hérna fyrir ykkur.

 Ég óska félagsmönnum VM góðrar helgi.

Guðmundur Helgi formaður VM.