10.1.2020

Föstudagspistill formanns 10.01.2020

Allt er komið á fullt á skrifstofu VM á nýju ári. Í þessari viku var fundað í tveimur kjaradeilum bæði með Ísal hjá sáttasemjara og óformlega en einnig var fundað með samninganefnd ríkisins vegna félagsmanna okkar hjá Hafrannsóknarstofnun. Í þessum kjaradeilum er farið að gæta mikillar óþolinmæði hjá okkar mönnum enda hafa báðir þessir hópar verið samningslausir mjög lengi.

VM hélt áfram með heimsóknir í kaupskipin í þessari viku en fundað var með vélstjórum bæði í Goðafossi og Selfossi. Gott er fyrir okkur sem starfa hjá félaginu að stíga stundum út af skrifstofunni til þess að hitta okkar félagsmenn. Þetta er liður í því að vera í enn betra sambandi við grasrót félagsins.

Úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna fundaði á mánudaginn í þessari viku, var ákveðið þar að slægður og óslægður þorskur hækkar um 3,0%, Slægð og óslægð ýsa hækkar um 3,0% en verð á slægðum og óslægðum ufsa og á karfa er óbreytt.

Undirbúningur fyrir aðrar kjaraviðræður er svo í fullum gangi. Samninganefnd sjómanna á fiskiskipum fundaði í vikunni þar sem farið var yfir málin og næstu skref. Það er ljóst að samningsaðilar þurfa að setjast niður sem fyrst í þeirri kjaradeilu til þess að leggja fram kröfugerðir. Vonandi tekst það strax í næstu viku.

Ég hef haft það fyrir reglu að fræða félagsmenn VM um þá starfsemi sem fer fram í sjóðum félagsins í hverjum mánuði. Í desember voru alls greiddir 229 styrkir út úr sjúkrasjóði VM og þar af voru 32 félagsmenn á sjúkradagpeningum. Það er gott að félagið geti staðið við bakið á félagsmönnum sínum í veikindum og auðvitað er sjúkrasjóður fyrst og fremst til þess að greiða fólki sjúkradagpeninga í veikindum eða vegna annara áfalla. Í desember voru greiddar tæpar 19 milljónir í sjúkradagpeninga frá félaginu vegna veikinda sjóðsfélaga, maka sjóðsfélaga eða annars sem kom upp á í lífi fólks. Heildarupphæð styrkja úr sjúkrasjóðnum voru rétt rúmlega 25 milljónir  í desember. Stéttarfélögin eru fyrir félagsmenn og gott að sjá það svart á hvítu þegar vel er gert.

Fræðslusjóðurinn er einnig mikilvægur. Alls voru greiddir 23 styrkir úr fræðslusjóði í desember og fengu félagsmenn styrki þar fyrir rétt tæpar 3 milljónir. Það þýðir að meðaltali rúmar 130.000 kr fyrir hvern félagsmann.

Ég óska félagsmönnum VM góðrar helgi.

Guðmundur Helgi formaður VM.