20.12.2019

Hugleiðingar í hálfleik

Þessi pistill birtist fyrst í jólablaði VM sem er verið að bera út til félagsmanna þessa dagana.

2019 er að renna sitt skeið á enda. Þetta var stórt kjarasamningaár en búast má við því að 2020 verði það einnig.

Undanfarin misseri hefur verið mikið að gera hjá VM í kjaramálum. Í maí skrifuðum við undir almennan kjarasamning VM við SA. Það er ekki hægt að segja annað en lífskjarasamningurinn sem SGS og VR skrifuðu undir mánuði á undan hafi lagt línurnar fyrir Íslenskan vinnumarkað. Þó var það þannig að með samstöðu iðnaðarmannafélaganna náðum við aðeins að teygja á því sem SGS og VR fengu, t.d styttingu vinnuvikunnar og færa taxta nær greiddum launum.

Síðan er búið að skrifa undir nokkra kjarasamninga eins og hjá Norðurorku, vélstjórum á kaupskipum, HS – orku, Landsvirkjun, sveitarfélögunum og núna í byrjun desember var svo skrifað undir tvo kjarasamninga við OR, annarsvegar vegna vélfræðinga og hinsvegar vegna málmtæknimanna. Þá hafa samningaviðræður VM við Rio Tinto á Íslandi (ÍSAL) siglt í strand og er búið að vísa þeirri deilu til ríkissáttasemjara. Ég vil geta þess að þar standa öll iðnaðarmannafélögin saman.

Enn eru nokkrir samningar á byrjunarreit og sums staðar gengið mjög illa að fá fundi með viðsemjendum okkar. Erfiðast hefur verið að koma á samningafundum með ríkinu. Það er gjörsamlega óþolandi að ríkið dragi lappirnar endalaust þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að koma á fundum. Það er ólíðandi siður hjá okkur Íslendingum að draga alla kjarasamninga. Verklag þarf að breytast þannig að samningur taki ávallt við af samningi.

Einn er svo samningur sem ég hef ekki nefnt enn, það er kjarasamningur fiskiskipasjómanna. Það hefur verið óánægja með verðlagningu á fiski í mörg ár. Þar virðast útgerðir komast upp með ýmis trix sem virðast eingöngu vera til þess að halda niðri fiskverði. Eins og að skiptast á afla milli ótengdra útgerða, sem virðist vera gert til þess að ná fram meiri hagræðingu í vinnslunni og losna við að borga sjómönnunum markaðsverð fyrir þann fisk sem fer ekki í þeirra vinnslu. „Ég læt þig fá ýsu í staðinn fyrir þorsk og svo öfugt, allt á lágmarksverði.“ Svo ég minnist ekki á verðin á uppsjávarfiski í samanburði við það sem gerist á erlendum mörkuðum. Það er mér og fleirum óskiljanlegt hvernig getur staðið á því, að verð á kolmunna og síld svo ég tali nú ekki um makríl á Íslandi skuli vera tvisvar til þrisvar sinnum lægri hér en í löndum eins og Færeyjum og Noregi og sumum þyki það eðlilegt.

Í grein eftir Indriða G. Þorláksson fyrrverandi skattstjóra frá 29. nóvember um Samherjamálin vitnar hann í skýrslu nefndar fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra frá 2016 þar sem segir meðal annars „um eignir Íslend­inga á aflands­svæðum er sá þátt­ur, m.a. í sjáv­ar­út­vegi, nefndur til skýr­inga á upp­söfnun aflandseigna og sagt var­færn­is­lega að ekki sé hægt að úti­loka að slíkt sé enn í gangi. Í skýrsl­unni er m.a. þetta orða­lag að finna: “Til skamms tíma áttu mörg sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki dótt­ur­fyr­ir­tæki á Kýpur sem nýtt­ust þeim í skatta­legu til­liti. Telja sumir að þessi dótt­ur­fé­lög íslensku sjáv­ar­fyr­ir­tækj­anna hafi einnig verið notuð við milli­verð­lagn­ingu afurð­anna.” Ekki er vitað til þess að þessi skýra ábend­ing nefnd­ar­innar hafi orðið stjórn­völdum til­efni til aðgerða,“

Það er merkilegt að ríkisvaldið skuli ekki telja svona ásakanir tilefni til nánari skoðunnar. Þar sem þessar athugasemdir koma frá nefnd á vegum fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra. Einnig hefði maður talið að útgerðarmenn hefðu viljað hreinsa sig af svona ásökunum frá opinberri nefnd. 

Tel ég að stærsta hagsmunamál sjómanna í komandi kjarasamningum verði að laga verðlagningu á afla og gera fiskverð gegnsætt alla leið, frá veiðum til maga neytandans. Þar ættu að fara saman hagsmunir sjómanna og útgerðarmanna, þó svo að það sé hagstæðast fyrir vinnsluna að kaupa fiskinn sem ódýrast og selja hann sem dýrast. Það er grundvallarspurning fyrir sjómenn hvort ekki væri best að krefjast aðskilnaðar útgerðar og vinnslu.

Til þess að fá leiðréttingu á fiskverði fyrir sjómenn, tel ég algjörlega nauðsynlegt að allir sjómenn standi saman í komandi aðgerðum. Stéttarfélögin og sjómenn snúi bökum saman og krefjist þess að fá réttlátari og gegnsærri verðmyndum á allan afla.

 

Hvað Samherjamálið varðar þá þarf ekki að rekja það hér. Ég ætla heldur ekki að fella dóma um sekt eða sakleysi, læt réttarkerfið um það. Eitt er þó víst að ef þetta reynist rétt þá er siðferðið ekki á réttum stað. Við verðum að krefjast þess að þeir sem hafa réttinn til þess að nýta auðlindir geri það með virðingu við auðlindina og með réttlátri skiptingu með starfsfólki sínu sem og þjóðinni allri.

Þegar lagt var af stað í þessa samningalotu sem enn er í gangi fyrir rúmu ári síðan voru ýmsar úrtölu raddir sem töldu að verkalýðsforystan myndi keyra allt í strand með óraunhæfum kröfum. Þó aðallega að ekki væri hægt að gera kröfur á ríkið að koma að samningaborðinu t.d hvað varðar vaxta- og velferðarmál. Vextir hafa lækkað hratt frá undirskrift kjarasamninga og hafa aldrei verið lægri, átak er hafið í húsnæðismálum og fæðingarorlof lengist fyrst frá 1. jan 2020 og svo aftur 1. jan 2021. Þetta er aðeins hluti af þeim málum sem ríkisvaldið kom með að samningaborðinu.

 

Að lokum vil ég óska öllum félagsmönnum VM og fjölskyldum þeirra gleðilegra jóla og farsældar á komandi ár, með þökk fyrir það ár sem er að líða. 

Guðm. Helgi Þórarinsson formaður VM