6.12.2019

Föstudagspistill formanns 6. desember 2019.

Enn var skrifað undir kjarasamninga, í þessari viku var skrifað undir við Orkuveitu Reykjavíkur og undirfyrirtæki. VM á tvo kjarasamninga við Orkuveitu Reykjavíkur, einn vegna vélfræðinga og hinn er vegna málmtæknimanna. Kosning um samningana hefst í dag en kynningafundur um þá verða næsta mánudag. Það sem ég er hvað ánægðastur með við þennan samning er að veikindakafli samninganna verður jafnaður. Vélfræðingar hafa verið með mun betri veikindarétt í Orkuveitunni heldur en málmtæknimenn en í þessum samningum er það lagað. Það er orðið fátítt í kjarasamningagerð að samið er um aukin veikindarétt.     

Einnig var fundað vegna kjaradeilu vélstjóra á sanddæluskipum. Ágætis gangur er í þeim viðræðum. Á miðvikudaginn hittust stéttarfélög iðnaðarmanna og félagsmenn þeirra sem starfa hjá ÍSAL. Búið er að vísa þeirri deilu til ríkissáttasemjara þar sem samningsvilji fyrirtækisins hefur verið lítill. Það var góður fundur og gott að heyra í okkar félagsmönnum þar. Það er fátt mikilvægara í starfi stéttarfélaga en að hitta félagsmenn og ganga í takt með grasrótinni.

Orlofsnefnd VM hittist í vikunni, en eins og sumir muna var henni falið að vinna 5 ára áætlun fyrir næsta aðalfundi. Það er mikilvægt fyrir VM að fá festu í orlofsmálin og skipuleggja sig til framtíðar í þeim málum.

Mér finnst gott að fræða félagsmenn VM einnig um önnur mál en kjaramál. Í nóvember voru alls greiddir 184 styrkir út úr sjúkrasjóði VM og þar af voru 26 félagsmenn á sjúkradagpeningum. Það er gott að félagið geti staðið við bakið á félagsmönnum sínum í veikindum og auðvitað er sjúkrasjóður fyrst og fremst til þess að greiða fólki sjúkradagpeninga í veikindum eða vegna annara áfalla. Fyrir nóvember mánuð voru greiddar rúmar 21 milljónir í sjúkradagpeninga frá félaginu vegna veikinda sjóðsfélaga, maka sjóðsfélaga eða annars sem kom upp á í lífi fólks. Heildarupphæð styrkja úr sjúkrasjóðnum voru rétt rúmlega 27 milljónir  í nóvember. Ég vil minna alla félagsmenn VM að kynna sér reglur sjóðsins. Þetta er sjóðurinn ykkar sem á að hjálpa ykkur þegar áföll verða í lífinu.  

Fræðslusjóðurinn er einnig mikilvægur og eins og áður hefur komið fram hugsaður fyrir sí- og endurmenntun félagsmanna.  Alls voru greiddir 26 styrkir úr fræðslusjóði í nóvember og fengu félagsmenn styrki þar fyrir rétt tæpar 2 milljónir.

Það er viðamikið starf unnið í stéttarfélagi eins og VM. Mér finnst mikilvægt að félagsmenn VM viti og geti kynnt sér það góða starf sem hér fer fram. Alltaf má gera betur og starfsfólk VM er alltaf tilbúið að taka við ábendingum ef félagsmenn VM hafa góðar hugmyndir til að bæta þjónustu félagsins.

Ég óska félagsmönnum VM góðrar helgi.

Guðmundur Helgi formaður VM.