13.12.2019

Föstudagspistill formanns 13 desember

Það er alltaf gott að setjast niður í lok vikunnar til að skoða hverju félagið áorkaði í vikunni.

Á mánudag var kynning á nýjum kjarasamning í Orkuveitu Reykjavíkur fyrir félagsmenn VM, Samiðnar og Rafiðnaðarsambandsins. Kosning um samninginn stóð yfir þangað til í dag. VM er aðili að tveimur kjarasamningum við Orkuveitu Reykjavíkur og voru þeir báðir samþykktir.

Góð kjörsókn var um báða samningana. Um 83% vélfræðinga kausu um samninginn og samþykktu hann rétt tæp 79% af þeim sem tóku þátt. 73% málmtæknimanna kusu um samninginn og samþykktu rétt tæp 63% samning málmtæknimanna.

Einnig var kynning og kosning um kjarasamning vélstjóra á sanddæluskipum í vikunni. Var sá samningur samþykktur samhljóma.

Það er ljóst að félagsmenn VM eru byrjaðar að spá í vinnutímastyttinguna á almennum vinnumarkaði sem tekur að hluta til gildi 1. apríl 2020. Margir félagsmenn eru þessa dagana að hafa samband við starfsmenn félagsins til þess að fá ráðleggingar um hvernig er best að standa að því að stytta vinnutímann og einnig til að lesa yfir samkomulög sem búið að gera. Einnig hafa starfsmenn VM farið á vinnustaði og leitt samningaviðræður fyrir hönd starfsmanna að þeirra ósk. Það er gleðiefni að þessi vinna sé byrjuð.

Eins var kláruð skipulagning á félagsfundum VM í kringum jól og nýja árið sem sérstaklega eru hugsaðir fyrir vélstjóra á fiskiskipum. Verður fundað á Höfn, Fjarðarbyggð, Ólafsvík, Akureyri, Reykjavík, Vestmannaeyjum og á Ísafirði verður fjarfundur með Reykjavík.  Dagskrá um þá fundi hefur verið send út og er á heimasíðu félagsins. Samningar fiskiskipamanna eru lausir og því mikilvægt að fá góða mætingu á þessa fundi til þess að grasrótin geti komið sínum fingraförum á kröfugerð félagsins.

Einnig er búið að skipuleggja heimsóknir um borð í kaupskipin í kringum jólin og nýtt ár. Ég hlakka mikið til þess að hitta félagsmenn okkar, enda er það einn mikilvægasti partur af mínu starfi að vera í góðu sambandi við félagsmenn VM. 

Ég óska félagsmönnum VM góðrar helgi.

Guðmundur Helgi formaður VM.