29.11.2019

Föstudagspistill formanns 29. nóvember 2019

Lunginn úr síðustu viku fór í fund hjá IndustriAll Europe sem að þessu sinni var haldinn í Finnlandi. Þar sem ég sat ásamt Áslaugu R. Stefánsdóttur skrifstofustjóra VM.

Aðal málefni fundarins var umgjörð um lágmarkslaun og kjarasamninga heilt yfir í evrópu. Fjölmörg lönd innan ESB hafa hvorki lágmarkslaun né kjarasamninga. Evrópuráðið er að skoða það að taka upp lágmarkslaun innan Evrópusambandsins, það sem þarf að tryggja er að þetta skerði ekki laun eða réttindi í öðrum löndum t.d á norðurlöndunum þar sem réttindi og laun eru með því besta sem þekkist í heiminum. IndustriAll Europe fær afskipti af þessu máli og því beittu t.d Norðmenn og Danir sér á þinginu, að ef lágmarkslaun verða tekin upp innan ESB þá megi það aldrei rýra betri kjör í öðrum löndum. Þessu þarf að halda til haga.

Á miðvikudaginn lauk kosningu um kjarasamning VM við sveitarfélögin. Það er skemmst frá því að segja að sá samningur var samþykktur, Á kjörskrá voru 42 félagar í VM af þeim tóku 30 þátt í kosningunni. Þátttaka er því rúm 71%. Já sögðu 17 eða 56,67%, nei sögðu 12 eða 40% og einn skilaði auðu.          

Kjarasamningafundir voru nokkrir í þessari viku var fundað tvisvar sinnum í kjaradeilu iðnaðarmannafélaganna og Orkuveitu Reykjavíkur, von mín er að skriður sé að komast á þau mál. Einnig var fundað með Björgun vegna kjarasamnings við VM og Marel vegna fyrirtækjasamnings iðnaðarmannafélaganna og fyrirtækisins.

Vikan endaði svo þegar fundað var með vélstjórum sem starfa hjá Hafrannsóknarstofnun. Því að þó að stöðugt er unnið í því að klára kjarasamninga sem lausir eru er  enn nóg af samningum sem eru lausir og þarf að klára sem fyrst. Sem dæmi eru enn lausir kjarasamningar við ríkið vegna Hafró og Landhelgisgæslunnar, Orkubú Vestfjarða, Isal og fl. Fyrir utan það að samningar losnuðu hjá sjómönnum á fiskiskipum.

Skipulagning fyrir fundi með sjómönnum í kringum jól og áramót eru í fullum gangi á skrifstofu félagsins og verður vonandi hægt að auglýsa hvar og hvenær þeir verða strax í næstu viku. 

 
Ég óska félagsmönnum VM góðrar helgi.

Guðmundur Helgi formaður VM