23.11.2019

Föstudagspistill formanns 22. nóvember 2019

Því miður fór það svo þessa vikuna að föstudagspistillinn breyttist í laugardagspistil.

Þessi vika einkendist minna af kjaramálum en undanfarnar vikur þrátt fyrir að fjölmargir félagsmenn VM séu enn samningslausir. Verið er að reyna að ýta málum áfram þó hægt sé. Það er von mín að í næstu viku muni meira gerast í kjaramálum, enda óþolandi að sumir félagsmenn VM hafi verið samningslausir í rétt tæpa 11. mánuði.

Ég minni þá á sem starfa hjá sveitarfélögum að kjarasamingur VM og sveitarfélaga er í kosningu, hægt er að kjósa um samninginn í gegnum heimasíðu félagsins með íslykli eða rafrænum skilríkjum.

Í vikunni sat ég fund í fulltrúaráði sjómannadagsráðs þar sem VM var með fullskipað lið en við eigum þar átta fulltrúa. Margt fróðlegt kom fram á þeim fundi, við skoðum nýja aðstöðu sem ráðið var að taka í notkun og fjallað var um rekstur félagsins. Það var mjög áhugavert að heyra þær staðreyndir að miðað við þær kröfur sem ríkið gerir á aðila sem reka öldrunarþjónustu, þá kemur alltof lítið fé með þeim sem þurfa þessa þjónustu. Ljóst er að aðilar eins og sjómannadagsráð sjá sér ekki hag í því að byggja upp fleiri rými á meðan ástandið er eins og það er í dag. Sem er sorglegt því að við vitum að fráflæðisvandi Landspítalans er mikill og mun ódýrara er fyrir ríkisvaldið að hafa þjónustu eins og Þá sem sjómannadagsráð bíður upp á, frekar en að láta fólk liggja inn á spítalagöngum eða kompum eins og oft er því ekki eru til hjúkrunarrými til þess að útskrifa fólk á eftir að heilsu er náð inn á spítalanum.

Einnig var fundur í fulltrúaráði Gildis lífeyrissjóðs, þar kom fram þau ánægjulegu tíðindi að raunávötun sjóiðsins er 12% það sem af er ári. Það er vonandi að árið endi á þeim nótum. Henný Hinz hagræðingur ASÍ var með erindi á fundinum um samspil ellilífeyris almannatrygginga og lífeyrissjóða. Henný benti réttilega á það í erindi sínu að þegar lífeyrissjóðirnir voru stofnaðir þá voru þeir hugsaðir sem auka stoð við kerfið við hlið almannatrygginga en í dag virðist ríkið hugsa lífeyrissjóðina til þess að lækka lífeyrisgreiðslur úr almannatryggingakerfinu. Henný sýndi fram á ótrúlegar skerðingar í kerfinu og að fólk sem ávallt hefur greitt í lífeyrissjóð fær oft það miklar skerðingar að það er litlu betur sett en þeir sem aldrei hafa greitt í sjóðina. Þessu þarf að breyta, til þess að kerfið virki eins og það var hugsað í byrjun.

Í vikunni fórum við í heimsókn í Samskip og hittum félagsmenn okkar til þess að fara yfir vinnutímastyttingu og gerð fyrirtækjasamninga. Í gær fórum við Halldór Arnar forstöðumaður kjara- og menntasviðs á Akureyri þar sem við kynntum kjarasamning VM við sveitarfélögin fyrir félagsmönnum okkar þar.


Ég óska félagsmönnum VM góðrar helgi.

Guðmundur Helgi formaður VM