15.11.2019

Föstudagspistill formanns 15. nóvember 2019

Síðasta vika var aðeins rólegri hvað beinar kjarasamningaviðræður varðar en síðustu vikur.

Það var þó fundað í deilunni við ÍSAL, og með Sambandi Íslenskra Sveitarfélaga, sem endaði með undirritun á kjarasamningi á miðvikudagskvöld. Var þetta fjórði kjarasamningur sem VM undirritar á fimm vikum.

Samningurinn kveður á um launahækkanir í takt við aðra samninga á vinnumarkaði.
þá kom vegna reglna um að takmarka eigi mismunun starfsmanna eftir aldri, fá allir starfsmenn sveitarfélaga 30 daga orlof óháð aldri eða starfsaldri.
Einnig ákvæði um að mennta- og starfsþróunarkafli samningsins verður endurskoðaður og aðlagaður þörfum iðnaðarmanna og vélstjóra.

Þá hefst fundur með OR nú kl. 11:00 og annar með ÍSAL kl. 14:00. Vil ég taka fram að öll iðnaðarmannafélögin sem eiga aðild að þessum samningum hafa setið saman við samningaborðið. Er það mín trú að það hafi í öllum tilfellum verið styrkur og skilað betri árangri.

Eitt af því sem vakti mikla athygli í vikunni var fréttaskýringaþátturinn Kveikur. Þar var fullyrt að útgerðarfélagið Samherji hafi stundað stórfelldar mútugreiðslur til stjórnmála- og embættismanna í Namibíu til þess að komast yfir fiskveiðikvóta, og eins að Samherji hafi notfært sér skattaskjól í þeim tilgangi að koma hagnaði úr landi. Þessar fullyrðingar, ef þær eru sannar, vekja upp spurningar um siðferði fyrirtækisins.

Þá var haft eftir Jóhannesi Stefánssyni fyrrverandi starfsmanni Samherja .“ þetta er bara skipulögð glæpastarfsemi. Þeir eru að græða á auðlindum landsins, taka allan pening út úr landi til þess að fjárfesta annarsstaðar, þá í Evrópu eða Bandaríkjunum,”. Viðurkenndi Jóhannes að hafa framið lögbrot í starfi hjá fyrirtækinu.

Það ætla ég að vona að réttarkerfið og pólitíkin muni setja það í forgang að komast til botns í þessu máli. Það vakna svo margar spurningar í tengslum við þetta mál sem þarf að fá svör við og það sem fyrst. Fyrr er ekki hægt að taka málefnalega umræðu í svona máli.


Ég óska félagsmönnum VM góðrar helgi.

Guðmundur Helgi formaður VM