1.11.2019

Föstudagspistill formanns 1. nóvember 2019

Þetta er þriðja vikan í röð þar sem skrifað er undir kjarasamning, í vikunni náðist saman á milli VM, Rafiðnaðarsambandsins og Samiðnar annarsvegar og Landsvirkjun hinsvegar, skrifað verður undir samninginn í dag, föstudaginn 1 nóvember.

Kosning stendur enn yfir vegna kjarasamnings vélstjóra á kaupskipum. Við náðum að hitta áhöfnina á Arnarfelli í þessari viku til þess að kynna samninginn.

Enn eru fjölmargir kjarasamningar VM lausir og eru það verkefni næstu vikna að klára sem flesta af þeim samningum.

Í vikunni fór einnig fram skipulagning og boðun á fulltrúaráðsfund VM sem verður föstudaginn 8. Nóvember. Þar á að kynna fyrir trúnaðarmönnum félagsins vinnutímastyttingu og fyrirtækjasamninga. Ljóst er að í nýjum kjarasamningum var vægi fyrirtækjasamninga aukið, það er því mikilvægt að trúnaðarmenn og félagið gangi í takt í þessum breytingum.

Eins og ég hef áður komið inn á í föstudagspistli mínum þá er ekki einungis unnið með kjaramál á skrifstofunni. Í vikunni var greitt út úr sjúkrasjóð VM og fræðslusjóð VM. Alls voru greiddir 145 styrkir út úr sjúkrasjóði VM og þar af voru 29 félagsmenn á sjúkradagpeningum. Það er gott að félagið geti staðið við bakið á félagsmönnum sínum í veikindum og auðvitað er sjúkrasjóður fyrst og fremst til þess að greiða fólki sjúkradagpeninga í veikindum eða vegna annara áfalla. Fyrir október mánuð voru greiddar rúmar 21 milljónir í sjúkradagpeninga frá félaginu vegna veikinda sjóðsfélaga, maka sjóðsfélaga eða annars sem kom upp á í lífi fólks. Heildarupphæð styrkja úr sjúkrasjóðnum voru rétt tæplega 27 milljónir fyrir október mánuð.

Fræðslusjóðurinn er einnig mikilvægur fyrir félagsmenn VM og er hugsaður fyrir sí- og endurmenntun félagsmanna. Sí- og endurmenntun hefur sjaldan verið jafn mikilvæg og í miðri fjórðu iðnbyltingunni enda er ljóst að störf munu þróast og breytast á næstu árum. Alls var greiddur 31 styrkur úr fræðslusjóði í þessum mánuði og fengu félagsmenn styrki þar fyrir rétt tæpar 2 milljónir í október mánuði.

Frábært starfsfólk VM heldur utan um þessa sjóði. Valdís Gunnarsdóttir heldur utan um sjúkrasjóðinn og Særún V. Michelsen heldur utan um fræðslusjóðinn. Ef félagsmenn hafa spurningar um sjóðinn eru þær ávallt tilbúnar að svara fyrirspurnum ykkar.

Ég óska félagsmönnum VM góðrar helgi.

Guðmundur Helgi formaður VM.