8.11.2019

Föstudagspistill 8. nóvember

Eftir þrjár vikur í röð þar sem skrifað var undir kjarasamning fyrir hönd félagsmanna VM þá var því miður ekki skrifað undir neinn kjarasamning í þessari viku.

Það var þó ýmislegt annað sem gerist hjá VM en að skrifa undir kjarasamninga.

Vikan hófst á því að ég ásamt Kristjáni Þórði Snæbjarnarsyni formanni Rafiðnaðarsambandisins og Hilmari Harðarsyni formanni Samiðnar kynntum nýjann kjarasamning við Landsvirkjun í Búrfellsvirkjun. Aðrar starfsstöðvar voru á fundinum í gegnum fjarfundarbúnað. Kosning um samninginn stendur yfir og lýkur þann 11. nóvember.

Á fundi úrskurðarnefndar um verðlagsmál voru þau gleðitíðindi fyrir sjómenn að þorskur bæði slægður og óslægður hækkaði um 8,7% og karfi um 4%. Það er ávallt gott að sjá þegar afurðarverð fer upp, en það bætir kjör okkar manna á sjó. 

Fundað var með samninganefnd sveitarfélaganna tvisvar í þessari viku vegna kjarasamnings okkar félagsmanna þar. Samningar ganga hægt, og þarf að fara að spýta í lófanna þar svo að okkar félagsmenn fái sanngjarnar kjarabætur þar sem allra fyrst. Ég hef sagt það áður og ætla að segja það aftur að það er óþolandi staða okkar félagsmanna að vera samningslausir í marga mánuði eftir að kjarasamningar renna út. Mín skoðun er sú að samningur á að taka við af samning þann dag og vera tilbúinn í síðasta lagi þegar fyrri samningur rennur út.

Á miðvikudaginn skaust ég austur fyrir fjall í Bláskógarbyggð, en þar var fundur um hitaveituna á Laugarvatni. Í gær fimmtudag sat ég svo fund í Atvinnuvegaráðuneytinu vegna ársfundar NEAFC sem er norðaustur Atlantshafsfiskiveiðinefndin. Margt fróðlegt kom fram á þeim fundi.

VM stóð fyrir námskeiði um lífeyrismál í þessari viku. Síðasta vetur stóð VM fyrir þremur samskonar námskeiðum og hafa þessi námskeiði slegið í gegn á meðal félagsmanna VM. Á þessu námskeiði er rætt um stoðirnar sem mynda lífeyrisgreiðslur og reynt er að svara ýmsum spurningum sem brenna á félagsmönnum VM um lífeyrismál.  

Í dag föstudag var fulltrúaráðið kallað saman en þar var verið að kynna fyrirtækjasamninga og hvernig þeir virka í raun og veru en einnig var farið vel yfir styttingu vinnuvikunnar og nýtt launakerfi sem aðilar á vinnumarkaði stefna á að þróa saman.

Kjarasamningur vélstjóra á kaupskipum var samþykktur en kosningu lauk á miðnætti í gær. Kosningaþátttaka var með besta móti á meðal félagsmanna VM. Ég er sannfærður um það að heimsóknir félagsins um borð í skipin til að kynna kjarasamninginn hafi gert sitt til þess að ýta undir þátttöku félagsmanna.

Ég óska félagsmönnum VM góðrar helgi.

Kv Guðmundur Helgi formaður VM.