18.10.2019

Föstudagspistill formanns 18. október

Oft þegar sagðar eru fréttir af því hvað stéttarfélög gera þá gleymast hefðbundin verkefni félagsins. VM er heppið að hafa frábært starfsfólk sem sinnir sjóðum félagsins, orlofskostum, kjara- og menntamálum og almennri þjónustu við félagsmenn, Fjölmargir félagsmenn nýta sér þjónustu félagsins í hverri viku hvort sem félagsmönnum vantar hjálp vegna veikinda, styrk til að bæta við sig þekkingu eða spyrja um kjara- og réttindamál.

Af óhefðbundnum verkefnum er líka nóg af, í vikunni voru fjölmargir samningafundir vegna lausra kjarasamninga og fyrirtækjasamninga. Fundað var í kjaradeilum VM við Landsvirkjun, Orkuveitu Reykjavíkur, HS-orku og vegna vélstjóra á kaupskipum. Málin þokkast á flestum stöðum eitthvað áfram en of hægt og þá sérstaklega í orkugeiranum.

VM kláraði einn kjarasamning í vikunni en það var fyrir hönd vélstjóra á kaupskipum. Næsta verkefni er að fara og hitta áhafnir allra kaupskipa sem starfa eftir þessum samning og kynna samninginn. Í framhaldinu verður kosið um kjarasamninginn. Eitt af skemmtilegri verkefnum sem ég hef í því starfi sem ég gegni er að hitta félagsmenn og fá þeirra skoðun á málunum. Félagsmenn eiga ávallt að stýra því hvert þeirra félag er að stefna.

Einnig byrjaði VM fyrir hönd iðnaðarmannafélaganna sem eiga félagsmenn hjá Marel að ræða nýjan fyrirtækjasamning í vikunni. Gaman verður að sjá hvað kemur út úr þeirri vinnu. En eins og margir vita er eitt af markmiðum nýs kjarasamnings að semja um ákveðna hluti inn í fyrirtækjum t.d um vinnutíma og launaröðun.

Formannafundur ASÍ var einnig í vikunni þar sem formenn aðildarfélaga ASÍ báru saman bækur sínar, stóra málefni formannafundarins var að fylgja eftir loforðum ríkisvaldsins vegna nýgerðra kjarasamninga. Auk þess sat ég aðalfund hjá Iðunni fræðslusetri, og einnig hitti ég og önnur sjómannafélög SFS þar sem ræddar voru bókanir í síðasta kjarasamningi.

Þetta var viðburðarrík vika eins og ég hef farið yfir, það er von mín að VM nái að klára fleiri kjarasamninga á næstu vikum, það er ólíðandi að félagsmenn okkar hafi verið samningslausir t.d í orkugeranum í rétt tæpa 10 mánuði og hjá ríki og sveitarfélögum í rúmlega hálft ár. Það á ekki að bjóða launafólki í landinu upp á þau vinnubrögð sem viðhöfð eru í kjaradeilum, að fólk byrji oft ekki að tala saman um nýjan kjarasamning fyrr en sá eldri er runnin út.  

 Ég óska félagsmönnum VM góðrar helgar.

Guðm. Helgi formaður VM