11.10.2019

Föstudagspistill formanns. 11. okt.

Vikan var viðburðarík í starfi VM. Á mánudag og þriðjudag sátum við Halldór Arnar forstöðumaður kjaradeildar VM þing hjá norræna vélstjórafélaginu í Danmörku. Þessi þing eru ótrúlega góð fyrir fólk að fræðast um starfsemi félaganna í hverju landi og til þess að læra nýja hluti. Á þinginu sem nú er ný lokið var mikið rætt um mengurnarvarnir skipa og hvaða þróun er í gangi þar. Einnig kom fram á fundinum að vegna krafna um að minnka mengun frá skipum hafi komið ný bætiefni í brennsluolíu sem væri mun hættulegri mönnum en þau sem fyrir eru.

Í þessari viku héldu kjaraviðræður áfram á nokkrum stöðum, fundað var með Landsvirkjun, Orkuveitu Reykjavíkur, Ísal og í Marel en þar hófst endurskoðun á nýjum fyrirtækjasamning. Ljóst er að kjaraviðræður silast áfram en ekki nægilega hratt að mati VM, þar sem margir af okkar félagsmönnum hafa nú verið samningslausir í að verða 10. mánuði. Það er staða sem VM getur illa sætt sig við.

Í vikunni sem nú er að líða sat ég einnig fundi lífeyrisnefndar ASÍ, í undanþágunefnd, mönnunarnefnd skipa og stjórnarfund hjá Iðunni fræðslusetri. Að sitja þessa fundi er mikilvæg hagsmunagæsla fyrir félagsmenn VM.

Á síðasta aðalfundi VM var samþykkt að selja sumarbústaði VM á Kirkjubæjarklaustri. Enda var komin mikil viðhaldsþörf á þá, áður var búið að ákveða að setja sumarhús VM á sölu í Hraunborgum. Í þessari viku var gengið frá sölu á sumarhúsunum á Kirkjubæjarklaustri og er því búið að selja þau hús sem ákveðið var að selja. Verða fjármunir sem koma inn í orlofssjóð við þessar sölur nýttir til viðhalds og til þess að bæta aðstöðu í öðrum sumarhúsum VM. Ákveðið var að fara í þessar breytingar þar sem ljóst var að slök nýting var á mörgum sumarhúsum VM síðustu ár og mikil viðhaldsþörf var komin á mörg hús. Það er til skoðunar að leigja hús yfir sumartímann í stað þessara húsa með það að markmiði að svipað margir orlofskostir verði í boði yfir sumartímann þegar nýtting húsanna er betri.

Í næstu viku vonumst við til þess að það fari að sjást til lands í eitthvað af þeim kjaraviðræðum sem við stöndum í núna.

Ég óska félagsmönnum VM góðrar helgar.

Guðm. Helgi formaður VM