4.10.2019

Föstudagspistill formanns

Þessa dagana er mikið um að vera á skrifstofu VM.  Þriðjudaginn 1. október losnaði kjarasamningur á milli VM og SFS vegna vélstjóra á fiskiskpum. Fimmtán kjarasamningar eru því lausir þessa stundina en unnið er hörðum höndum að því að fækka þeim. Þeir félagsmenn VM sem eru með lausa samninga í dag eru t.d. starfsmenn flestra orkufyrirtækja, Ísal, vélstjórar á kaupskipum og félagsmenn VM hjá sveitarfélögum og ríki.

Í vikunni sem nú er að líða var fundað með viðsemjendum okkar hjá Landsvirkjun, Orkuveitu Reykjavíkur, kaupskipaútgerðum og með ríkinu. Kjaradeilurnar eru komnar mislangt en er það von mín að eitthvað fari að fækka lausum kjarasamningum á næstu vikum.

Í vikunni sem núna er að líða var einnig fundað í undanþágunefnd, úrskurðarnefnd um fiskverð og einnig funduðu sjómannafélögin með SFS vegna bókanna síðustu kjarasamninga. Á úrskurðarnefndarfundi um fiskverð var ákveðið að halda fiskverði óbreyttu frá síðustu ákvörðun en þetta á við afla sem ráðstafað er til eigin vinnslu eða er seldur til skyldra aðila.

Menntamálin eru ávallt fyrirferðamikil innan VM. Halldór Arnar forstöðumaður kjara- og menntasviðs VM situr fyrir hönd VM í mennta og kynningarnefnd ASÍ, en þar var fundað í vikunni.  

Verkefni á skrifstofu VM eru ótalmörg á hverjum degi, og hér er aðeins farið yfir það helsta. Orlofsmálin eru ávallt fyrirferðarmikil, fyrirspurnir og heimsóknir frá félagsmönnum okkar voru fjölmargar í þessari viku og er það ánægjulegt að sjá hversu margir félagsmenn nýta sér þjónustu okkar. Hvort sem það er að nýta sér sjóði félagasins eða fræðast um kjara-, réttinda- og menntamál.

 Ég óska félagsmönnum VM góðrar helgi.

 Guðm. Helgi formaður VM