28.5.2019

Pistill formanns

Nýtt blað VM var að fara í dreifingu, blaðið er gefið út fyrir sjómannadag ár hvert. Hér er hægt að lesa pistill formanns. 

Góðir félagar í VM.

Nú í byrjun maí skrifuðu iðnaðarmannafélögin undir kjarasamning við SA á almenna markaðinum. Samningalotan hafði staðið lengi yfir eða frá því í nóvember 2018 með hléum. Á sama tíma var SA líka í viðræðum við Verslunarmannafélögin og SGS. Í mars voru iðnaðarmenn settir á bið á meðan samningar voru kláraðir við verslunarmenn og SGS. Þegar við komum aftur að borðinu var okkur tilkynnt að það væri búið að festa launarammann og enginn hópur fengi meiri launahækkanir en 90.000 kr. á taxta. SA ætlaði að vera með eina launastefnu gagnvart öllum þeim hópum sem þeir semja við.

Iðnaðarmenn fóru af stað með sameiginlegar kröfur þar sem markmiðin voru meðal annars að hækka dagvinnulaunin og færa taxta nær greiddu kaupi, raunstytta vinnutímann og tryggja kaupmátt. Við náðum að sveigja aðeins þann ramma sem fyrir lá og aðlaga hann betur að okkar kröfum. í þessum samningum er lögð áhersla á að hækka lægstu launin og teljum við að okkur hafa tekist vel upp í því að hækka taxtana. Má t.d. nefna að okkur tókst að hækka grunnlaun sveina um rúm 114 þúsund en nemataxtar hækka allt að 36,8%.

Það sem ég tel samt vera mestu verðmætin í þessum samningum er að við erum að stytta dagvinnuvikuna um allt að fjóra tíma eða í 36 klst á viku. Með því að nota 5. kafla kjarasamningsins svo kallaðan fyrirtækjasamning. Með ákvæði sem tekur gildi 1. jan 2022 og er kallaður „Staðlaður valkvæður  fyritækjaþáttur“  geta starfsmenn tekið þá ákvörðun einhliða að sleppa skipulögðum kaffihléum og stytta dagvinnuna í 36 tíma og 15 mín. á viku eða 7 klst. og 15 mín. á dag. Ef það er samþykkt að fara þessa leið af starfsmönnum þá verður atvinnurekandi að verða við því. Okkur hefur því tekist að stytta dagvinnuvikuna um 3 klst. og 45 mín á viku. Það er að verða komin hálf öld síðan dagvinnuvikan var síðast stytt. Tel ég að þessir samningar verði lengi í minni hafðir fyrir það.

Þá vil ég einnig taka fram að samstaða Iðnaðarmannafélaganna var til fyrirmyndar í þessari samningalotu. Það eru ýmis mál sem ég tel að ekki hefði tekist að koma í gegn nema af því að félögin stóðu þétt saman. Bind ég miklar vonir um að samstarf félaganna eigi eftir að skila sér í meiri styrk og öflugari stéttarfélögum í framtíðinni.

Það er rétt að það komi fram að einnig var gert samkomulag við ríkisstjórnina í þessum samningum. Í forsenduákvæði samningsins kemur fram að ef ríkið stendur ekki við sinn hluta samkomulagsins er hægt að segja upp samningnum tvisvar á samningstímanum.  

Með þessum samningum hefur launafólk lagt sitt lóð á vogarskálina til að viðhalda stöðugleika og lágri verðbólgu, einnig hefur ríkisstjórnin lagt sitt til. En það er ekki nóg, fyrirtækin í landinu verða einnig að axla sína ábyrgð á stöðugleikanum. Það verða allir að leggja sitt að mörkum.

Það er nóg eftir þó þessi samningur sé kominn í höfn. VM er enn með marga samninga lausa. Má þar nefna t.d. orkufyrirtækin, kaupskipin, Landhelgisgæsluna, Hafrannsóknarskipin, sveitarfélögin, og.fl.  Þá losnar samningurinn við Rio Tinto á Íslandi nú um þessi mánaðarmót. Það er því ljóst að það er nóg að gera í samningamálum næstu misseri.

Ég vil líka minnast aðeins á kjarasamninga fiskiskipasjómanna sem losna í lok árs. Það er ótrúlegt að við Íslendingar skulum oftast fá borgað lægsta fiskverð miðað við þjóðirnar í kringum okkur. Það á við bæði um botnfisk og uppsjávarfisk þó svo að munurinn sé oftar meiri hvað varðar uppsjávarfiskinn. Það vantar gagnsæi hvað fiskverðsmyndunina varðar. Þá er það áhyggjuefni hvað útgerðarmenn þrýsta mikið á fækkun manna og í sumum tilfellum þá þykir alveg sjálfsagt að brjóta á öllum hvíldartímareglum. Það virðist stundum vera hugsunarháttur hjá útgerðarmönnum að það sem er ekki bannað, það má. Það Þarf að skerpa á þessum ákvæðum svo ekki sé hægt að fara fram hjá þeim endalaust. Tel ég að svo langt sé gengið í frávikum frá mönnun að verið sé að misnota mönnunarnefnd  í þeim tilfellum, þar er verk að vinna.

Ljósi punkturinn í málefnum fiskiskipamanna er að stéttarfélög sjómanna eru byrjuð að stilla saman strengi sína bæði hvað varðar þær bókanir sem samþykktar voru í síðustu kjarasamningum og einnig hvað næstu kjarasamninga varðar. Er það mín bjargfasta trú að ef árangur á að nást hvað helstu mál sjómanna varðar þá verðum við að vera vel undirbúnir. Það er því mikill kostur að koma fram sem ein heild. Við eigum svo mikið meira sameiginlegt en bara kjölinn undir skipinu.

 

Að lokum vil ég nota þetta tækifæri og óska öllum sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með sjómannadaginn.