25.1.2019

Kjaraviðræður SA og VM

Þó nokkrir fundir hafa farið fram vegna kjarasamninga VM og SA sem runnu út um áramót. VM er í samfloti með öðrum iðnaðarmannafélögum og hefur farið talsverður tími í að pússa kröfugerðir félaganna saman. Einnig höfum við átt fjölmarga fundi með SA þar sem báðir aðilar hafa lagt fram kröfugerðir sínar. Aðal kröfur SA er að fara í ákveðnar kerfisbreytingar á vinnumarkaði, þar sem við hættum að tala um 40 klst vinnuviku og förum að tala um virkan vinnutíma, markmið breytinganna er að reyna að minnka yfirvinnu, sveigjanlegan vinnutíma, auka framlegð og með því raunstytta vinnuvikuna. Iðnaðarmannasamfélagið hefur svarað þessum kröfum með því að ef fara á í þessar breytingar þurfi dagvinnulaun að hækka umtalsvert á móti. 

Samtök atvinnulífsins hafa sagt að þessar kerfisbreytingar séu fyrsta skrefið í átt að vinnumarkaði líkt og er á hinum norðurlöndunum. Iðnaðarsamfélagið og ASÍ hafa svarað þessu með því að ekki gangi að einungis vinnumarkaðurinn sé eins og á hinum norðurlöndunum, einnig þurfi önnur kerfi að vera eins í þessum löndum t.d heilbrigðiskerfið, skattakerfið og vaxtakjör. 

Miklar umræður hafa farið fram en lítið sem ekkert hefur verið ákveðið um raunstyttingu vinnuvikunnar.  Rætt hefur verið um ýmsa möguleika án þess að nokkuð hefur verið fastsett. Einnig á eftir að ræða hvað SA er tilbúið að hækka dagvinnulaunin mikið til þess að þessar hugmyndir nái fram að ganga. Ljóst er að ekki er vilji í þessar breytingar nema að dagvinnulaun hækki svo markmið um vinnutímastyttingu séu raunhæfar. Næstu fundir á milli viðsemjanda munu skera úr um það hvort það sé grundvöllur til áframhaldandi viðræðna. 

SA og iðnaðarmannafélögin hittast næst í dag, föstudaginn 25. janúar klukkan 12.00.