15.1.2019

Iðnaðarmenn – menntun – laun.

Iðnaðarmenn og samtök þeirra hafa í gegnum tíðina bent ítrekað á að menntun og störf þeirra hafi ekki verið gert nógu hátt undir höfði. Hér á landi hefur mesta orkan í menntamálum farið í að reyna að koma sem flestum í gegnum bóknám. Því hefur verið haldið fram að það sé svo arðbært fyrir þjóðina til lengri tíma litið að vera með vel menntað fólk. Mér finnst þó oft að það skorti að horfa á heildarmyndina þegar verið að ræða um hluti sem þessa.

Ráðamenn þjóðarinnar eru að vakna upp við það að myndin er skökk. Eru kannski of margir að fara í ákveðið nám á meðan það vantar fólk á öðrum sviðum?

Það hefur komið fram í máli Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra að núverandi ríkisstjórn ætli að efla iðn- og verknám. Vísar hún í það, að á Íslandi er verið að útskrifa úr starfs- og iðnnámi í kringum 12% af nemendum á framhaldsskólastigi í samanburði við 40% í Noregi. Ennfremur talar hún um að ríkisstjórnin muni setja aukið fé á framhaldsskólastigið gagngert til að efla þessa þætti. Gleðst VM yfir því.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir þingkona Sjálfstæðisflokksins hefur ásamt fleirum lagt fram frumvarp á þingi sem myndi jafna stöðu sveinsprófs og stútentsprófs sem inntökuskilyrði í háskóla.  Þar er talað um að að leggja fjölbreytt mat á nemendurna sem koma úr skólakerfinu og senda ungu fólki og foreldrum þau skilaboð að það loki ekki leiðum í framtíðínni að velja iðnnám.

Guðrún Hafsteinsdóttir  formaður Samtaka iðnaðarins talar um að það sé orðin gríðalegur skortur á fólki með hæfni og þekkingu í verklegum greinum  og það reynist erfitt fyrir fyrirtæki að manna störf á sviði iðn- og tæknigreina . Því sé mikilvægt að fjölga þeim sem útskrifast í þessum greinum til að mæta þörfum atvinnulífsins.

Allt er þetta gott og blessað. Gleðst ég mjög yfir þessum áhuga, þá sérstaklega áhuga menntamálaráðherra og hef mikla trú á  að þar fylgi hugur máli.

Það sem skiptir líka máli þegar ungt fólk velur sér framtíðarstörf er hversu aðlaðandi störfin eru, það er aðbúnaður og laun. Á síðustu árum höfum við myndað hér tvöfalt kerfi hjá iðnaðarmönnum, annarsvegar erlend vinnuafl sem er því miður oftast keyrt niður á lægstu taxta og hinsvegar íslenskt vinnuafl sem flest semur um svokölluð markaðslaun. Það er því miður landlægt hjá okkur að fara illa með erlent vinnuafl. Við borgum þeim eins lágt kaup og við komumst upp með og okrum á þeim í húsaleigu og öðrum kostnaði, oft er það sami aðilinn sem útvegar vinnuna og húsnæðið. Íslendingar í þessum geira hafa jafnvel fengið að heyra, þegar þeir fara fram á kauphækkun “ þú veist að ég get fengi tvo útlendinga fyrir þín laun”. Þetta er vinnuumhverfið sem mætir ungu fólk á Íslandi sem velur sér iðnnám.

Ef við ætlum að gera iðnám aðlaðandi fyrir unga fólkið verðum við að hafa launamálin í lagi. Það er ekki aðlaðandi að vera að keppast á vinnumarkaði við erlent vinnuafl sem verið er að fara illa með. Það er ótrúlegt að ekki skuli vera hægt að koma í veg fyrir að það. Að sömu fyrirtækin komast jafnvel upp með það að brjóta á fólki aftur og aftur. Ríkisstjórn og Alþingi löggjafinn verða að gera framkvæmdavaldinu  kleift að loka þeim fyrirtækjum sem eru brotleg. Hér er verið að tala um að taka á kennitöluflakki, félagslegum undirboðum og skattaundanskotum. Það er í raun merkilegt hvað hefur tekið langan tíma að stoppa kennitöluflakk og koma á keðjuábyrgð á Íslandi. Eina sem þarf er vilji stjórnmálamanna en sá vilji virðist ekki vera til staðar. Hvaða hagsmuni er verið að gæta? A.m.k ekki hagsmuni launafólks.

Grunnkrafa iðnaðarmannafélaganna í núverandi samningaviðræðum er sú að geta lifað mannsæmandi lífi á dagvinnulaunum. Ef við ætlum að fjölga iðnaðarmönnum á vinnumarkaði þá þarf bæði starfsumhverfi og laun að vera samkeppnishæft við önnur störf sem krefjast sambærilegar menntunar.