30.1.2018

Spennan hleðst upp

Það styttist í að sambönd og stéttarfélög á almenna vinnumarkaðnum taki afstöðu til þess hvort kjarasamningum verði sagt upp eða ekki, en sú ákvörðun á að liggja fyrir í lok febrúar n.k. Reyndar er forsendubrestur til staðar frá því í febrúar á síðasta ári en þá var ákveðið að segja ekki upp samningum. Það er mikil ólga í gangi og stór mál hafa komið upp, eins og úrskurðir Kjararáðs, fjárlög sem ekki eru að vinna með launafólki og margt fleira sem pirrar alla. Ýmsir hópar hjá ríki og sveitafélögum eru með lausa samninga og eiga í kjaraviðræðum sem ekki er séð fyrir endann á. Hugmyndir um vinnumarkaðsmódel eru ekki á teikniborðinu. Litlir hópar með sterka stöðu í aðgerðum eru byrjaðir að ná sínu fram umfram launaþróun annarra. Stjórnvöld eiga í viðræðum við aðila vinnumarkaðarins, meðal annars um ýmis mál sem snúast um að verja stöðu þeirra sem verst eru staddir. Atvinnuleysisbætur, fæðingarorlof, vaxtabætur, menntamál og margt fleira eru meðal þeirra mála. Innspýting inn í byggingu íbúða fyrir launalægsta hópinn á vinnumarkaðnum gengur hægt. Það liggur fyrir að þessi mál fara ekki inn í kröfur VM eða annarra stéttarfélaga, það þarf hinsvegar að halda þeim á lofti.

Við erum illa brennd af stjórnvöldum og pólitíkinni eftir ítrekuð svik á loforðum sem hafa verið hluti af kjarasamningum og voru gefin til að liðka fyrir gerð kjarasamninga. Ég vil ekki sjá aðgerðir frá stjórnvöldum til að liðka fyrir framgangi kjarasamninga nema með skriflegum samningum eða málið hafi verið afgreitt á Alþingi. Traustið er löngu farið eftir svik og vanefndir. Aðkoma stjórnvalda verður að vera í hendi og sorglegt að það muni taka langan tíma að byggja upp traust á milli aðila.


Það eru nokkrir valkostir í stöðunni fyrir félagsmenn VM að fara yfir, þegar taka á afstöðu til þess hvort segja eigi upp samningum í febrúar. Einn af þeim er að láta kjarasamninganna standa, fá þrjú prósent launahækkunina í maí, auk viðbótarframlags í lífeyrissjóðina sem kemur í júní. Leyfa þeim hópum sem eru með lausa samninga að ljúka þeim. Móta kröfur okkar fyrir komandi samninga, undirbúa félagið og félagsmennina í aðgerðir þegar samningurinn rennur út í lok árs, gerist þess þörf.
Eða segja upp samningum nú.
Hver vilji félagsmanna VM verður mun koma í ljós á næstu vikum. Við munum funda með trúnaðarmönnum og á vinnustöðum. Kanna með því hvort það er vilji eða forsendur til að láta reyna á kröfur okkar nú. Vilji félagsmanna verður að vera mjög skýr um að standa við hótun um aðgerðir, gerist þess þörf. Ef einhugur og samstaða er ekki til staðar nú þá er það niðurstaðan. Það er með kjarabaráttu eins og margt annað að tímasetning getur skipt máli varðandi árangur. Það er ekki kjarkleysi eða eftirgjöf að leggja mat á stöðuna og taka ákvörðun út frá því. Við megum ekki láta mál sem pirra okkur stjórna aðgerðum okkur, við þurfum að vera skynsöm og tilbúin þegar við förum fram með okkar kröfur.
Það eru fleiri atriði sem verður að leggja mat á í okkar umhverfi. Hvernig ætla aðrir að fara inn í verkefnið, hvaða hópar á almenna markaðnum eru tilbúnir í aðgerðir ef þarf, hverjir eru tilbúnir að fara fyrstir og með hverjum?
Þetta eru allt atriði sem við þurfum að fara yfir á næstu vikum.

Guðmundur Ragnarsson, formaður VM.