26.9.2017

Viljum bara raunhæf kosningaloforð

Síðasti pistill minn var undir yfirskriftinni “Engin framtíðarsýn til að byggja á„ Ekki hefur ástandið batnað núna við fráfall ríkisstjórnarinnar, segi ég, þó ég hafi ekki verið mikill aðdáandi hennar.

Við förum nú í kosningar með samfélagið í miklu uppnámi og tilfinningalegu ójafnvægi á öllu sviðum. Það er kallað eftir endalausu réttlæti í öllum málaflokkum og erfitt er að átta sig á því hvar mesta óréttlætið er. Það er mín heitasta ósk að við fáum ríkisstjórn sem hefur burði til að taka á þeim mörgu vandamálum sem þarf að leysa úr. Allir frasarnir eru enn í fersku minni frá síðustu kosningum, og vafalaust verður bætt í loforðin til að laða að kjósendur. Það sem ég tel að kjósendur eigi að kalla eftir og hafa sem kröfu númer eitt í öllum málflutningi frambjóðenda og flokka, er að þeir leggi fram heilstæða fjármögnun á þeim málaflokkum sem þeir eru að lofa. Við eigum ekki að fara í gegnum einar kosningarnar enn þar sem öllu fögru er lofað og síðan reyndist allt vera í plati eftir kjördag.

Þeir málaflokkar sem eru þyngstir í útgjöldum ríkisins eru að mestu ljósir og eru föst stærð. Ef bæta á við, eða fara inn á nýjar leiðir eða málefni, þá verða að koma nýjar tekjur til þess, ef ekki á að skera niður annarstaðar. Kjósendur verða að fá að vita hvernig á að afla nýrra tekna. Ef það á að gerast með aukinni skattheimtu þá verður að liggja ljóst fyrir hverjir eigi að bera þá auknu skattbyrði.
Til viðbótar þessu þá tel ég að staða okkar, sem samfélags í mörgum málum, sé að verða þannig að við verðum að viðurkenna að við munum ekki standa undir dýrum umbótum í mörgum brýnum málaflokkum og við verðum að sætta okkur við það. Sú staðreynd kallar á að forgangsraða verkefnunum.

Það er skiljanlegt að almenningur eigi erfitt með að ná samhengi í málflutning fráfarandi ríkistjórnar, þegar sagt er að hér sé allt á fullu í góðæri. Svo virðist sem ekkert svigrúm sé til að bæta stöðu þeirra sem verst standa á mörgum sviðum, jafnvel þó báðar fyrirvinnur fjölskyldunnar séu á vinnumarkaði. Allt tal um góðæri kann að skjóta skökku við afkomu margra heimila.

Þroskastig íslenskra stjórnmála verður að lagast hratt, helst strax. Þannig að uppbygging samfélagsins byggist á samkomulagi og málamiðlunum milli ólíkra sjónarmiða. Sú leið sem við höfum notað hefur verið byggð á hugmyndafræðinni; mín leið eða ég er á móti. Sú aðferðafræði framkallar að sífellt er verið að breyta og rífa niður það sem fyrri valdahafar gerðu. Ef Alþingi leggur ekki línurnar með framtíðarsýn í grunnmálefnaflokkum samfélagsins verður engin framtíðarsýn og stöðugleiki til að byggja á.

Það er mín sýn á ástandið, í komandi kosningum, að við munum ekki í þessum kosningum leggja grunn að einhverri framtíðarsýn til að byggja á, að því sögðu að það takist að mynda ríkisstjórn. Hún mun þá fá í fangið erfiða kjarasamninga sem allir reikna með að endi í hinu fræga höfrungahlaupi og átökum. Auk allra þeirra erfiðu og kostnaðarsömu málaflokka sem kallað er eftir að finna lausn á.

Var einhver að tala um að bjartsýnin geislaði af manni?

Guðmundur Ragnarsson, formaður VM