9.6.2017

Engin framtíðarsýn til að byggja á

Að vanda er mikið í gangi á vettvangi VM og stefnan er að vinna í innri málum félagsins meðan friður er á vinnumarkaðinum. Kjaradeila vélstjóra á fiskiskipum sem lauk með kjarasamningi, er ferli sem við þurfum að læra af fyrir næstu kjarasamningagerð. Þar þarf margt að breytast í samstarfi stéttarfélaga sjómanna og við þurfum að skoða nýja nálgun vegna ólíkra hagsmuna okkar umbjóðenda milli útgerðaflokka. Kjararáðstefna vélstjóra á fiskiskipum verðu í október, þar vona ég að okkur takist að móta nýja og framsækna kjarastefnu með nýjum nálgunum.

Það er miður að hið svokallaða SALEK sé komið á bið og að halda eigi áfram með höfrungahlaupið við endurnýjun komandi kjarasamninga. Það er með kjarasamninga eins og flest annað í okkar samfélagi, að ekki virðist vera hægt að leggja grunn að framtíðarsýn inn í stöðuleika.

Ég fer ekki ofan af þeirri skoðun minni að pólitíkin var aðilinn sem brást við að koma okkur af stað inn í samningsmódel á vinnumarkaðnum. Módel sem við höfum horft til og kynnt okkur vel hjá þjóðum sem hafa komið á stöðuleika og framkallað raun aukningu á kaupmætti með lágum launahækkunum.

Ef stjórnvöld eða réttara sagt pólitískir flokkar, hvort sem er til hægri eða vinstri, eru ekki tilbúnir að koma að þeirri framtíðar uppbyggingu sem þarf, með samfélagslegum verkefnum sem stuðlar að jöfnuði, mun okkur ekki takast að koma á breyttum vinnubrögðum við gerð kjarasamninga og stöðuleika sem skila raunverulegri kaupmáttaraukningu.

Við virðumst ekki geta komið okkur inn í einhverja framtíðarsýn með samfélagið. Við erum eins og slökkvilið í öllum okkar verkefnum, við erum alltaf að slökkva elda.

Húsnæðisvandinn og bólan sem hefur sett húsnæðisverð út úr öllum raunveruleika, eru dæmi um hvernig okkur tekst að klúðra samfélagslegri uppbyggingu með hagsmuni fárra en ekki allra að leiðarljósi. Fámennur hópur einstaklinga sem langar að búa til borg fyrir sig og sinn lífstíl og er algerlega ótengdur við raunverulegt launafólk sem þarf að mæta í vinnu og koma sé síðan úr vinnu til að ná í börn sín á leikskóla eða úr skóla, fer sínu fram. Þessi vandi er ekkert að birtast núna, ég man viðtal í fréttatíma fyrir tveimur árum við formann meistarafélags húsasmiða að mig minnir. Þar sagði hann að hann gæti ekki skilið hvernig fara ætti að því að byggja ódýrt húsnæði fyrir ungt fólk ofan á dýrasta grunn og bílakjallara Íslandssögunnar þar sem viðtalið var tekið. Að ekki væri hugað að þörfum allra tekjuhópa og annarra þarfa hinna við skipulagninguna, minnir mann á sértrúarsöfnuð þar sem þröngsýnin ræður ríkjum og er að skapa ómælt tjón. Samgöngumálin eru önnur birtingarmynd af því að sértrúhópurinn er á móti bílum, það skulu allir fara að hjóla eða taka strætó. Við þurfum skýra framtíðarsýn í samgöngumálum höfuðborgarsvæðisins og við þurfum að átta okkur á hvað eru raunverulegir kostir til að mæta þörfum venjulegs fólks til að stunda vinnu og sinna fjölbleyttum þörfum sínum. Við megum ekki gleyma því á hvaða breiddargráðu við búum með tilliti til veðurfars. Síðan að lokum, spyr ég mig oft, mundi manni langa að ala upp börn í þessu steinköstulum sértrúaflokksins þar sem ekki er hægt að koma fyrir sparkvelli eða öðru fyrir börn, því þá verður að minnka byggingarmagnið á viðkomandi reit. Ég nota þetta sem dæmi hvernig okkur tekst að klúðra hlutunum með hagmunastefnum fárra á flestum sviðum, en ekki með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi, til að skapa samfélag með jöfnuði og fyrir alla.

Það eru margir kjarasamningar lausir á þessu ári og almenni markaðurinn mun segja upp kjarasamningum í febrúar á næsta ári ef einhverjar launhækkanir verða framkallaðar í samningunum á þessu ári. Það er ekkert óeðlilegt þar sem fámennur hópur fékk miklu meiri launahækkanir en aðrir í síðustu kjarasamningslotu. Að opinberu félögin fari á undan og framkalli hugsanlega miklar launahækkanir óháð því hvað er til skiptanna út frá útflutningsgreinum er nálgun sem er röng. Það er með samfélagið eins og rekstur á fyrirtæki og eða heimilli að ef eytt er umfram tekjur þá mun það leiða til vandamála.

Hvernig skiptingin á að vera á því sem er til skiptanna er annar vettvangur og miklu frekar leystur í kjörklefanum en í kjarasamningum.
Með krónuna á þeirri vegferð sem hún er mun þetta springa í andlitið á okkur fyrr en síðar. Það er alveg sama við hvern maður talar, það segja allir það sama, hvenær springur bólan sem er í gangi núna. Vissulega er talað um að þetta sé öðruvísi núna vegna innflæðis gjaldeyris og vonandi fer þetta vel. Það virðast samt fáir eða engir hagfræðingar koma fram og útlista hvernig við eigum eða getum höndlað stöðuna án þess að illa fari, ég hef alla vega ekki séð það og kalla eftir því, hagfræðin hlýtur að hafa svör við afleiðingunum af stöðunni og hvað er til ráða til að forðast harða lendingu.

Ég finn fyrir mikilli spennu hjá félagsmönnum VM varðandi næstu kjarasamninga og það er mikil ólga. Fólk er almennt ekki að upplifa þennan mikla uppgang í samfélaginu í eigin buddu. Stjórnvöld gera mikið úr hinni góðu stöðu, að við séum að sigla inn í samskonar paradís og var fyrir hrun en núna er þetta allt bara einhvernvegin öðruvísi. Kaupmáttur ríkur upp og vörur að lækka. Mínir félagsmenn hafa aðeins eina leið sem launamenn til að taka þátt í veislunni og hún er að fá verulegar launahækkanir. Hver staða fyrirtækjanna er, er eftir á vandamál sem við kunnum best að leysa með því að veikja krónuna og fá smá verðbólguskot og tapa kaupmáttar aukningunni sem varð til meðan krónan var sterk.

Rússíbana ferðalegið er hafið.

Kv. Guðmundur Ragnarsson, formaður VM