28.3.2017

Mikilvægi fag- og stéttarfélaga

Það er full ástæða til að benda ungu fólki, sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði eftir nám, á mikilvægi fag- og stéttarfélaga.
Skipulag verkalýðshreyfingarinnar hefur ekki þróast í takt við þær hröðu breytingar sem hafa orðið á íslenskum vinnumarkaði síðustu áratugi. Það eru of mörg stéttarfélög á Íslandi í dag og mörg þeirra eru blönduð félög sem reyna að tryggja tilveru sína með því að taka sem flesta í félagið, óháð því við hvað þeir starfa. Þetta fyrirkomulag veikir stéttarfélögin og kemur í veg fyrir að til verði sterk félög sem einbeiti sér að hagsmunagæslu fyrir ákveðna hópa.

Þeir sem starfa í vél- og málmtæknigreinum eru nú í mörgum stéttarfélögum. VM er stærsta félag þeirra sem starfa í þessum greinum og einbeitir sér að þeirra málum. Æskilegast væri að einungis væri eitt landsfélag allra sem starfa í vél- og málmtæknigreinum. Það eru breyttir tímar og við þurfum að gera VM að öflugu landsfélagi allra þeirra sem starfa í vél- og málmtæknigreinum, svo félagið geti sem best unnið að hagsmunum greinanna.

Með nútíma tölvutækni hafa allir sömu möguleika á að vera í samskiptum við sitt félag, hvar sem þeir búa á landinu. Þó höfuðstöðvar stéttarfélaganna séu á höfuðborgarsvæðinu geta þau verið með sameiginlegar þjónustuskrifstofur víðs vegar um landið.

Við verðum að vinna hratt í að koma þessum breytingum á, enda er það að koma betur og betur í ljós að það er kominn undirboðsmarkaður í félagsgjöld stéttarfélaga þar sem félög laða til sín félagsmenn með lágum félagsgjöldum. Hvað gera svo þessi félög? Til að reka sig taka þau peninga úr sjóðum sem ekki eru ætlaðir í rekstur þeirra og hafa ekki innri styrk til að fara í aðgerðir. Það kom okkur á óvart í kjaradeilu okkar fyrir vélstjóra á fiskiskipum að ótrúlega margir vélstjórar hafa farið í sjómannafélög sem eru með þak á félagsgjöldum. Það sem merkilegast er við þetta er að með þessu eru þeir að veikja VM og gera félaginu erfiðara að berjast fyrir hærri launum vélstjóra á fiskiskipum. Í síðustu samningum voru þessi sjómannafélög ekki tilbúin til að styðja kröfu VM um að hækka hlut vélstjóra á uppsjávarskipum í það sama og er á frystitogurunum. Því má segja að okkar félagar fóru í stéttarfélög sem eru á móti því að launin þeirra hækki. Er þetta ekki svolítið galið?

Það er þannig í okkar samfélagi að í kjaramálum, menntamálum, endurmenntun og réttindamálum er mikil vinna unnin af félögum eins og VM. Að verja fagréttindi er sífellt umfangsmeira starf, því þvert á allar ræður um að efla menntun er sífellt reynt að útþynna menntunina og rýra réttindin til að fá ódýrara starfsfólk.

Á sviði hagsmunagæslu fyrir félagsmenn VM sinnir félagið fjölbreyttum verkefnum í opinberum nefndum og ýmsum vinnuhópum s.s. í mönnunarnefnd, undanþágunefnd, úrskurðarnefnd um fiskverð auk starfsnefnda ráðuneyta. Einnig má nefna fulltrúaráð og stjórnir lífeyrisjóða, fagráð Véltækniskólans og Starfsgreinaráð, stjórn og sviðstjórn IÐUNNAR, Sjómannadagsráð auk annarra verkefna.
Á síðasta ári fór t.d. mikill vinna í að undirbúa og fylgja eftir tillögum Íslands um breytingar á alþjóðarsamþykkt fyrir fiskiskip (STCW-F).

Þessi upptalning er aðeins hluti af þeim mörgu verkefnum á sviði hagsmunagæslu sem fagfélag vinnur að fyrir sína félagsmenn. Síðan eru það þeir fjölmörgu ólíku kjarasamningar sem VM gerir fyrir ólíka hópa innan félagsins, sem eiga það sameiginlegt að starfa innan vél- og málmtæknigreinanna.

Það er mjög mikilvægt að einstaklingar skoði vel að tryggt sé að þeir séu í rétta fag- og stéttarfélaginu, þannig stuðlum við að því að gera okkur sterk til að takast á við framtíðina.
Eins og fram kemur verður öllum þessum verkefnum ekki sinnt nema með öflugum starfsmönnum og getu félagsins til að sinna öllum þeim fjölmörgu verkefnum sem við viljum hafa áhrif á og fylgjast með.

Mikilvægt er að allir kynni sér fjárhagslega stöðu þeirra sjóða sem stéttarfélögin reka eins og sjúkrasjóð, fræðslusjóð og orlofssjóð. Sjúkrasjóður VM er með þeim bestu sem reknir eru hjá stéttarfélögum í dag. Í Sjúkrasjóð stéttarfélaga fer eitt prósent af launum sem á að nota til að greiða sem hæsta dagpeninga fyrir þá sem verða fyrir því óláni að veikjast eða slasast, styrkir eiga svo að vera bónus ef sjóðurinn stendur vel, ekki aðaltilgangurinn.

Þó launþegar á vinnumarkaði hafi í dag réttindi sem búið er að berjast fyrir í áratugi, þá eru þau ekki sjálfgefin og baráttan heldur áfram. Í sumum tilfellum erum við að verja þau réttindi sem við höfum því alltaf er reynt að ná fram breytingum sem lækka laun.

Því er það mikilvægt að einstaklingar sem eru að koma út á vinnumarkaðinn íhugi það vel og passi upp á að vera í sínu fag- og stéttarfélagi. Með því eru þeir að stuðla að því að tryggja hag sinn og fjölskyldu sinnar til framtíðar. Gefið ykkur tíma til að hugleiða þessi mál og ekki væri verra að láta til sín taka hjá sínu félagi. Það er í þessu eins og í svo mörgu öðru að sameiginlega erum við sterk en sundruð veik.

Guðmundur Ragnarsson, formaður VM.