24.2.2017

Kjarasamningurinn samþykktur

Kjarasamningur vélstjóra á fiskiskipum var samþykktur með afgerandi meirihluta og góðri þátttöku.
Það sem er mér efst í huga nú er að þetta er góð niðurstaða og fyrsta skrefið inn í mikla og krefjandi vinnu á samningstímanum. Það er mjög mikilvægt að allir átti sig á því að í bókunum samningsins eru mörg stór úrlausnarmál sem verður að vinna skipulega og með öguðum tímaramma.

Ef það verður ekki gert munum við lenda í annarri ekki minni deilu í lok samningstímans.
Ég hef þá trú að SFS sé búið að átta sig á því að við verðum að finna lausnir í okkar mörgu ágreiningsmálum og muni leggja sig fram um að koma lausnarmiðaðir í þá vinnu.

Nú eru öll stéttarfélög sjómann með samþykkta kjarasamninga þó svo það hafi staðið tæpt að enn ein deila sjómanna og útgerðanna endaði með lagasetningu. Núna er það í okkar höndum að leggja grunn að nýjum vinnubrögðum við endurnýjun kjarasamninga í þessari atvinnugrein.


Guðmundur Ragnarsson, formaður VM