8.1.2017

Óheiðarleg framsetning

Niðurstaða könnunar VM, hjá vélstjórum á fiskiskipum, um þau áhersluatriði sem vélstjórum þykir þurfa að koma inn í nýjan kjarasamning liggur fyrir. Í könnuninni komu einnig fram ýmis atriði, sem við höfum haldið fram við okkar viðsemjendur, um hvað laga þarf í starfsumhverfi vélstjóra á fiskiskipum. Könnunin er gott veganesti fyrir samninganefndina inn í væntanlegar viðræður.

Staðan nú er grafalvarleg þegar fjórða vika í verkfalli er hafin. Engin merki eru um að viðræðugrundvöllur hafi skapast, sem getur verið undirstaða til að hefja þær viðræður sem geta leitt til þess að skrifað verði undir nýjan samning.

Ég hef svarað í greinaskrifum og pistlum undanfarin misseri framkvæmdastjóra SFS og forstjóra fyrirtækis innan SFS varðandi þeirra framsetningu og innlegg í áróðurinn, sem þeir nota, til að koma sínum sjónarmiðum að. Það lága plan að draga upp laun sjómanna eftir besta tímabil atvinnugreinarinnar og reyna að fá almenning og pólitíkina til að taka málstað SFS er þeim ekki til sóma.

Framkvæmdastjórinn notar í framsetningu sinni þær tölur sem hún telur henta og eru frá árinu 2015. Það gerir hennar málflutning í framtíðinni ekki trúverðugan,enda sjálf á háum launum við að koma áróðrinum á framfæri. Ég get fullyrt að meðallaun vélstjóra á fiskiskipum hjá VM 2016 eru allt að helmingi lægri en þær launatölur sem framkvæmdastjórinn notaði í grein í Viðskiptablaðinu nýlega. Laun vélstjóra á fiskiskipum eiga að vera góð. Þau er hins vegar komin á þann stað núna að flótti vélstjóra af flotanum mun bresta á, ef þau versna umfram það sem þau eru komin í í dag. Ég er að tala um meðallaunin en ekki launin á hæstu skipunum, laun sem öllum virðist vera tamt að vitna í. Það má spyrja hvort ekki séu takmörk fyrir hvað er hægt að leggja á sig, fjarvistir frá fjölskyldu, erfiða og mikla vinnu og fleira ef enginn er ávinningurinn.

Framkvæmdastjóranum er tíðrætt í fjölmiðlum um hlutaskiptakerfið. Vissulega er rétt að ytri aðstæður hafa áhrif á launin og afkomu fyrirtækjanna. Um það eru allir meðvitaðir. Hins vegar er það þannig ef tveir aðilar hafa með sér samning, þá verður að vera tryggt að þegar farið er eftir honum að grunnurinn sem allt er reiknað út frá, sé réttur og báðir aðilar viti það með vissu. Þar hefur mikið vantað upp á í samskiptunum allt of lengi og er það ein aðalástæða þess að fiskiskipaflotinn er nú í verkfalli.

Það er mín skoðun að framkvæmdastjórinn ætti frekar að eyða kröftum sínum í að koma á trausti á milli aðila og sýna og sanna að rétt sé gefið, því þar er vandinn. Það getur vel verið að SFS lesi það rétt að sjómenn muni ekki fá samúð almennings vegna þess að á bestu skipunum eru há laun. Það má vera rétt. Við töldum okkur hafa náð ásættanlegri niðurstöðu í verðlagsmálunum, þegar skrifað var undir kjarasamninginn, því miður kom í ljós að traustið var ekki til staðar. Vélstjórar trúðu ekki að það ætti að fara að vinna þessi mál með upplýstari hætti, sem myndi skila þeim hærra fiskverði. Það er líka ástæða þess að kallað er eftir fleiri atriðum inn í samninginn.

Ég hef frá 2011 eytt miklum tíma í að skrifa um verðlagsmálin og reynt að koma af stað umræðu í samfélaginu. Ég nefni pistla, greinar, viðtöl og þrjá Kastljósþætti. Ég hef aldrei skilið áhugaleysi almennings fyrir þessum málum. Ég hef ítrekað rætt við alþingismenn og það er sama niðurstaðan þar, enginn áhugi fyrir því að skoða málin hvað þá að taka á þeim. Alþingismenn verða að átta sig á að fyrst það er pólitískur vilji að hafa fyrirkomulagið í sjávarútvegi eins og það er, það er allt á einni hendi, þá verða þeir að tryggja að verðmyndunin í greininni sé opin og afurðaverð frá landinu sé rétt. Ef löggjafinn fer að hugleiða lög á deiluna, þá ætti hann fyrst að hugleiða hvað hann getur gert til að trygga að rétt sé gefið. Þar liggur hans ábyrgð.

Það er ekkert öðruvísi með eftirlitið með þessari atvinnugrein frekar en öðru hjá okkur, hvort það snýr að verðlagseftirliti, vigtunarmálum, siglingamálum, eða nánast hverju sem er. Stofnanirnar eru til en þeim er haldið niðri með fjársvelti. Hvort það er með vilja gert verða aðrir að svara til um.

Ég hef ein skilaboð til SFS; hættið þessum lágplana áróðri og verjið orkunni í að gera kjarasamning og koma fiskiskipaflotanum til veiða. Það er lítill vandi að fara í afkomutalnaleik fyrirtækja í sjávarútvegi og hvað þau voru treg að láta samfélagið njóta með sér af gróðanum á árunum eftir hrunið. Ef við veltum því upp er ljóst að einhverstaðar er eitthvað til af peningum, hvort sem þeir eru hér innanlands eða erlendis og þá á ónefndum stöðum.

Guðmundur Ragnarsson, formaður VM