19.12.2016

Kjarasamningurinn felldur

Kjarasamningurinn sem mikill meirihluti samninganefndar VM skrifaði undir við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), var felldur í atkvæðagreiðslu sem lauk s.l. föstudag.
Meginrökin með undirskriftinni voru þau að í þessari atrennu hefði náðst mikilvægar breytingar á verðlagsmálunum og rétt væri að láta reyna á breytingarnar með samningi til skamms tíma. Því var undirritaður samningur til tveggja ára.
Þessu eru vélstjórar á fiskiskipum ekki sammála og bíður því ekkert annað en að fara í fundaferð um landið til að hitta sem flesta, fara yfir stöðuna og skynja þannig hverju við þurfum að ná fram svo kjarasamningur komist á. Þetta mun taka tíma vega hátíðanna þannig að ég sé fyrir mér að snemma eftir áramót verðum við tilbúnir með okkar kröfur.

Ég hef ítrekað sagt í skrifum mínum um stöðuna í sjávarútvegnum, að mikil óánægja sé undirliggjandi vegna framkomu ýmissa útgerða gagnvart sjómönnum. Það liggur ljóst fyrir að það tekur tíma að lagfæra það sem þarf að laga. Útgerðarmenn sögðust ætla að lagfæra samskiptin á þeim tíma sem samningurinn átti að gilda og á það þarf að láta reyna. Þarna eru mínir félagsmenn augsýnilega ekki sammála og þeir bera ekkert traust, eða lítið til útgerðanna.

Í pistli mínum í tímariti VM, sem er að koma út, skrifaði ég um þann draum minn að við værum hugsanlega að komast inn á ásættanlegt verðmyndunarkerfi og gætum þá farið að snúa okkur að kjarabaráttu vélstjóra á fiskiskipum út frá faglegum og menntunarlegum þáttum, sem við ætlum og þurfum að fara í.

Við eigum eftir að hitta viðsemjendur okkar og þá kemur í ljós hver samningsviljinn er hjá þeim. Það þýðir ekki að loka augunum fyrir því að þeir töldu sig hafa komið verulega til móts við kröfur okkar og gætu ekki farið lengra í þessari atrennu. Vonandi finnum við sem fyrts lausn á þessari deilu og getum skrifað undir nýjan kjarasamning.

Ég hvet alla vélstjóra á fiskiskipum að mæta á fundi VM vegna kjarasamninganna.

Guðmundur Ragnarsson, formaður VM.