18.11.2016

Kjarasamningur við SFS

Kjarasamningur vélstjóra á fiskiskipum var undirritaður mánudaginn 14. nóvember sl. Kosning um samninginn er hafin og henni líkur 16. desember n.k.

Eftir að hafa ekki gert kjarasamning við útgerðina í átta ár var mikið sem lá undir og þyngst af því var að gera breytingar á verðlagsmálum á fiski upp úr skipi. Þegar leið að boðuðu verkfalli var farin að myndast mikil spenna og allt stefndi í að það þyrfti að fara í verkfall til að ná fram breytingum á verðmyndunni. Í fyrstu alvöru viðræðunum fyrir verkfallið kom skýrt fram af hálfu SFS að þeirra afstaða væri að koma að heilum hug að því að gera breytingar sem gætu framkallað sátt um verðlagninguna.

Ég fullyrði að allir þeir fulltrúar fyrirtækja sem komu að viðræðunum með starfsmönnum SFS lögðu sig alla fram um að við kæmumst að ásættanlegri niðurstöðu. Í þessum samningi eru gerða róttækar breytingar varðandi verðmyndun á bolfiski og uppsjávarfiski . Ég hef fulla trú á að þær muni færa okkur nær því að koma á verðmyndun sem sátt er um. Ef einhverjir hnökrar koma upp, sem ekki sást fyrir, er kjarasamningurinn til tveggja ára og því hægt að framkalla breytingar þá, ef þess verður þörf.

Það er full ástæða að árétta að í kjaraviðræðum verður að viðhafa heiðarleg vinnubrögð. Þegar náðst hafa fram ásættanlegar niðurstöður, við viðsemjanda, þá bætir enginn í kröfurnar á síðustu metrum samninganna. Það eru vinnubrögð sem VM ætlar ekki að ástunda og er aðferð sem mun ekki skila árangri til framtíðar. Það er með ólíkindum athyglin sem sumir hafa framkallað með ósönnum framsetningum varðandi veikindaréttinn og fleira eftir að VM skrifaði undir með fyrirvara og frestaði verkfallinu í rúma þrjá sólahringa meðan samninganefndin næðist á fund til að taka afstöðu til samningsins.

Það mun aldrei verða gerður kjarasamningur sem allir eru sáttir við. En ég tel að náðst hafi nú ásættanleg niðurstaða sem mun reyna á báða samningsaðila. VM átti fundi með 140 félagsmönnum víðs vegar um landið, en við misstum því miður Eyjafjarðarflotann á sjó áður en við náðum til Akureyrar. Á þessum fundum kom ekki fram mikil andstaða við kjarasamninginn sjálfan. Hins vegar kom fram mikið vantraust á sum útgerðafyrirtæki og það er kannski stærsta verkefnið á komandi samningstíma að fyrirtækin leggi sig fram við að laga samskipti sín við sjómenn. Í þessu eins og öðru í lífinu er þetta misjafn milli fyrirtækja. Sum fyrirtæki hafa verið með sín mál í góðu lagi, önnur hafa hreinlega hagað sér mjög ruddalega.

Það er vilji allra sem starfa í, og koma að þessari mikilvægu atvinnugrein, að um hana sé hægt að ná sátt og verðlagsmálin eru ekki minna mál en hversu mikið hver fær úthlutað í veiðiheimildum. Því er það verkefni okkar allra sem að þessu komum að stuðla að því að verðlagsmálin komist í ásættanlegan farveg.
Mönnunarmálin, sem var eitt af stóru málunum verður að finna lausn á á samningstímanum, og rannsóknarverkefnið um vinnuálag og hvíldartíma ( undirmönnun) mun vonandi skila árangri. Það má hins vegar ekki gleyma því að skipstjórar skipanna bera ábyrgð á því hvernig vinnufyrirkomulagið er. Hver ber svo ábyrgð á óhóflegu vinnuálagi, útgerðin eða skipstjórinn, það verður að skýra.

Það er ýmislegt sem má að læra af þessu. Til dæmis að eingöngu sé boðað verkfall á þann hluta flotans þar sem þarf að taka átök um ágreiningsefni. Við förum þá framvegis í aðgerðir á ísfiskskipin, uppsjávarskipin eða frystiskipin, allt eftir því hvar þarf að ná fram breytingum á kjarasamningi á hverjum tíma. Það verðu miklu skilvirkari aðferðafræði til að ná árangri. Snúist málið hins vegar um sameiginlegar kröfur gætum við þurft að fara í allsherjarverkfall.

Hver niðurstaða kosningarinnar um kjarasamninginn verður ætla ég ekki að spá, það kemur í ljós 16. desember.

Kv. Guðmundur Ragnarsson, formaður VM.