28.10.2016

Talnaleikur forstjórans, tilraun til að stýra umræðunni?

Forstjóri, og einn aðaleigandi Samherja, birtir miklar sundurliðanir á launum sjómanna og vélstjóra á heimasíðu fyrirtækisins. Hann bendir á þá staðreynd að þegar samana fara hagstætt gengi og góð veiði hafa sjómenn há laun, enda á svo að vera. Hitt er líka vitað þegar veiði er ekki góð ytri skilyrði óhagstæð, eru laun þeirra lág.
Forstjórinn vitnar í pistil sem ég skrifaði, þar sem ég enn og aftur, hafði upplýsingar um ótrúlega mikinn verðmun á fiski upp úr skipum hér á landi og í Noregi. Þar var borið saman verð á makríl, veiddum úr sömu veiðitorfunni.  Samanburðurinn var íslensku fyrirtækjunum hagstæður þar sem íslenska verðið var fyrir stærri makríl en þann sem var landað í Noregi.
Ég verð að játa að forstjórinn olli mér vonbrigðum. Að hann skuli leggjast svo lágt að snúa útúr því sem ég skrifaði. Ég spurði og kallaði eftir svörum út frá tölulegum staðreyndum. Ég talaði aldrei um starfsfólk sjávarútvegsfyrirtækja, hvorki hjá Samherja né annarsstaðar, eins og hann segir. Ég talaði einungis um æðstu stjórnendur.
Eftir stendur að forstjórinn þarf að lesa pistilinn yfir aftur og svara einhverju af því sem ég er að spyrja um. Öll þau ár sem ég hef unnið fyrir vélstjóra á fiskiskipum hafa samtök sjómanna kallað eftir að fá að sjá afurðarnótur fyrirtækja í uppsjávarveiðum til að átta sig á hvort einhliða ákveðið verð af stjórnendum fyrirtækjanna sé í samhengi við þau markaðsverð sem afurðirnar ganga á á erlendum mörkuðum.
Það hefur aldrei fengist og ég veit dæmi um að sjómenn, sem reynt hafa að grafast fyrir um þessi mál, hafi vinsamlega verið bent á það að þeir myndu missa vinnuna ef þeir hættu ekki að að leita upplýsinganna.
Ég sé aðeins einn tilgang með skrifum forstjóra Samherja, hann vill leiða umræðuna frá því sem ég hef margoft kallað eftir í skrifum mínum um fiskverð og afurðarverð yfir á laun sjómanna. Ég á mörg dæmi um mikinn verðmun sem aldrei hefur fengist skýring á.
Forstjórinn getur svarað spurningunum svo enginn þurfi að efast. Hann hefur gögnin.

Guðmundur Ragnarsson, formaður VM