17.10.2016

Niðurstaðan er afgerandi

Það er ánægjulegt að sjá hversu góð þátttaka var í kosningu um boðun verkfalls hjá vélstjórum á fiskiskipum og hve niðurstaðan er afgerandi. Þessi niðurstaða, 71,8% þátttaka og 90,8% sem samþykkja að boða verkfall, hlýtur að vera viðsemjendum okkar alvarleg áminning um að að setjast að samningaborðinu með öðru hugarfari en okkur hefur verið sýnt frá 2011.

Með þessa niðurstöðu munum við koma af fullum krafti í að fá alvöru viðræður við okkar viðsemjendur og fara í aðgerðir verði ekki búið að semja fyrir boðað verkfall.
Þeim mun trúlega bregða mörgum af stjórnendum útgerðafyrirtækja að vera komnir í þá stöðu að fara að semja við sitt fólk. Þar sem margir þeirra hafa þróað þá stjórnunarhætti að drottna og gefa skipanir. Umhverfið hefur þróast þannig að þeir hafa gefið skipanir og ekki þurfta að taka tillit til eins né neins. Það er ein af ástæðum þeirrar niðurstöðu sem við erum að sjá í þessari kosningu.

Síðan held ég að pólitíkin ætti að hysja upp um sig buxurnar og gefa gaum að kröfum sjómanna um verðmyndun á fiski og að rétt afurðarverð sé að skila sér til landsins. Við þurfum að fá að sjá það svo hægt sé að uppfylla núgildandi kjarasamninga.
Ég er stoltur af mínu fólki sem búið er að fá nóg.

Ég skora á stjórnvöld að láta það vera að skera útgerðina úr snörunni með því að setja lög á komandi kjaradeilu. Það þarf mikið til að slá á undirliggjandi ólgu eins og niðurstaðan sýnir.

Guðmundur Ragnarsson, formaður VM