28.9.2016

Vil ég einn fá svör?

Í framhaldi af síðasta pistli mínum, þar sem ég enn og aftur fjallaði um ógagnsæi í verðlagningu á afla upp úr skipi og stöðu þeirra mála þegar útgerðir eru með allt ferlið á einni hendi.

Það er veiðarnar, vinnsluna og sölumálin og engin hefur eftirlit með hvort afurðarverðin, sem verið er að selja sjávarauðlindina úr landi á, sé á markaðsverðum sem aðrar þjóðir selja sínar afurðir á.

Samkvæmt nýjustu tölum, sem ég hef fengið, eru Norðmenn að landa 380 gr. makríl, sem veiddur er á sömu slóðum og íslensku skipin hafa verið að veiða og fá greiddar170. ÍSK. (12. NOK.) fyrir kílóið.
Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef undir höndum, var greitt í síðasta mánuði fyrir 450 gr. makríl á Íslandi, frá 42. ÍSK upp í 55. ÍSK. fyrir kílóið.

Í þessum samanburði er íslenska fiskvinnslan að greiða 75 prósent minna fyrir aflann en  sú norska. Þá á norsk fiskvinnsla eftir að meðhöndla aflann á sama hátt og íslenska fiskvinnslan áður en hann er seldur. Ég hef ekki tölur um hver vinnslukostnaður er á unnið kíló af makríl, en hann er öruggleg hærri í Noregi vegna hærri launa og orkukostnaðar.
Laun vélstjóra á fiskiskipum eru algjörlega háð fiskverði upp úr skipi og það er krafa okkar að sambærilegt verð sé hér og í nágrannalöndum okkar á fiski sem er veiddur úr sömu torfunni.
Ef útgerðin getur, og stýrir verðinu svona, þar sem engin verðmyndun er hér á landi, þá er henni í lófa legið að selja sjálfum sér afurðirnar með sömu stýringunni og um leið skammtað hvað kemur til landsins og hvað verður eftir á gjaldeyrisreikningum erlendis.

Ef íslensk útgerð þarf nánast að fá aflann gefins til að ná endum samann hlýtur eitthvað mikið vera að. Eða þá óhæfir stjórnendur sem stýra þessum fyrirtækjum þó þeir hafi sýnt hagnað undanfarinn ár vegna stöðu krónunnar.
Það er ekkert eftirlit með þessu og engin opinber stofnun sem beri saman erlend markaðsverð og útflutningsverð afurða frá Íslandi.
Er hugsanlegt að gróði útgerðarinnar sem allir hafa verið að býsnast yfir sé aðeins toppurinn af ísjakanum? Mismunurinn kemur aldrei inn í íslenskt hagkerfi, nema kannski að hluta með kaupum á atvinnutækjum. Samfélagið hlýtur að þurfa að fá svör við þessu.

Eru veiðigjöldin sem útgerðin er alltaf að væla yfir eingöngu reiknuð af 60 til 70 prósent af raunverulegum verðmætum, en ekki af fullu og raunverulegi verði?
Út frá því sem að framan er sagt þá getur pólitíkin ekki skorast lengur undan því að komið verði á gegnsæi í verðmyndun á fiski og eftirliti með afurðarverðum sem flutt eru úr landi.

Markaðspostularnir munu væntanleg hrópa að ekki sé hægt að sýna eitt eða neitt vegna viðskiptahagsmuna eins og alltaf er sagt. En í þessu eins og öllu öðru sem fær að þrífast á græðginni, án eftirlits þá fara menn yfir strikið. Það er ekki lengur hægt að láta nokkra einstaklinga arðræna okkur auðlindinni.
Ég hef séð í fjölmiðlum að einhverjir eru farnir að hafa áhyggjur af fyrirhugaðri verkfallsboðun sjómanna. Það sem framan er sagt er ein aðal ástæða þess að sjómenn eru búnir að fá  nóg. Það er hvernig útgerðirnar skammta verð á lönduðum fiski. Sjómenn ætla að ná fram breytingar og gegnsæi á verðmyndun á fiski.
Ég skil ekki þennan mikla verðmun á lönduðum makríl á Íslandi og Noregi, en langar að skilja í hverju verðmunurinn liggur. Vonandi vilja það fleiri en ég og ekki væri það verra ef alþingismenn þyrðu að hafa skoðun á þessu.

Guðmundur Ragnarsson, formaður VM