12.9.2016

Stefnir í átök?

Nú liggur fyrir að samninganefnd vélstjóra á fiskiskipum ætlar að kalla eftir heimild til vinnustöðvunar. Kosningunni líkur 17. október n.k og ef hún verður samþykkt mun verkfall vélstjóra hefjast 10. nóvember 2016 kl. 23:00.  VM og önnur félög sjómanna hafa verið með lausa samninga frá 1. janúar 2011. Löngu er tímabært að meiri þrýstingur verði settur á til að gerður verði nýr samningur. Eina sem hægt er að gera  er að kalla eftir verkfallsheimild, sem vonandi verður samþykkt.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) hafa ekki verið tilbúin í öll þessi ár til að fara í stóru málin og samningurinn sem Farmanna og fiskimannasambandið (FFSÍ) og Sjómannasambandið (SSÍ) skrifuðu undir í sumar tók aðeins á stóru málunum, í bókun, meira náðist ekki þar. VM var ekki tilbúið að skrifa undir samninginn sem var síðan felldur með miklum meirihluta hjá aðildarfélögum SSÍ.

Stærsta málið í deilunni er verðlagning á lönduðum afla og vandséð er hvernig það verður leyst nema með aðkomu stjórnvalda. Það er furðulegt hvað samfélagið virðist vera áhugalaust gagnvart þeim málum. Verðlagning er ekki minna mál en fyrirkomulagið um hverjir hafi heimild til að nýta aflaheimildirnar. Þegar talað er um arð af auðlindinni þá hlýtur að vera eitt aðalmálið hvert verðið upp úr sjó er og hvort afurðarverðið út úr landinu sé rétt. Ef sá sem hefur nýtingarréttinn getur stjórnað því munu aðrir aldrei vita með réttu hver afraksturinn er af auðlindinni og hvort tekjur samfélagsins séu réttar. Ef til dæmis fyrirtæki sem er með alla virðiskeðjuna á einni hendi sem og sölufyrirtækið  sem selur og kaupir afurðirnar erlendis, verður að vera tryggt að rétt afurðaverð skili sér til landsins  en ekki hugsanlega aðeins sjötíu prósent. Verðið  myndar stofninn sem aulindarentan og laun sjómanna eru reiknuð út frá. Ég hef aldrei skilið hversu samfélagið virðist dofið fyrir þessum málum þar sem hugsanlega er verið að tala um tugi milljarða á hverju ári. Ef hins vegar kemur upp svindl í mjólkurbúi upp á nokkrar milljónir þá verður allt vitlaust. Meðan útgerðin er ekki tilbúin að leggja þessi mál á borðið, þá verður alltaf tortryggni.

Verðlagsmálin eru hluti sáttarinnar sem þarf að nást um atvinnugreinina til framtíðar. Ef þau verða ekki í umræðunni verður engin sátt, þó farin verði ný leið við úthlutun veiðiheimilda. Það er slæmt að þurfa að vera með þetta stóra mál inn á kjarasamningsborði, en laun okkar umjóðenda byggjast á fiskverði og afurðarverði og því verður ekki hjá því komist að óbreyttu.

Það er umhugsunarefni að allir postular markaðshagkerfisins, sem stýra sjávarútvegsfyrirtækjunum, vilji alls ekki hafa markaðsdrifið umhverfi í sinni atvinnugrein. Ég hef aldrei náð að skilja það, því allir eru þetta hinir mætustu einstaklingar, og hef ég kynnst þeim mörgum.

Starfsumhverfi vélstjóra hefur breyst mjög hratt síðustu tíu ár. Við viljum alvöru viðræður um þær breytingar. Afstaða SFS til krafna okkar eru furðulegar í ljósi þess að útgerðin talar  sífellt um miklar tæknivæðingar og breytingar í greininni en vilja á sama tíma halda starfsumhverfinnu aftur í fornöld, því það hentar þeim. Fækkun í áhöfn er mál sem hefur farið úr böndunum vegna græðgi útgerðanna. Vinnuálag hefur aukist mikið með þeim afleiðingum að allir eru að gefast upp á því. Á mörgum skipum er orðin full þörf á að dusta rykið af vökulögunum sem sett voru á til að forða sjómönnum frá líkamlegum skaða.

Það er ánægjulegt að Sjómannafélag Íslands komi að borðinu og styrki aðgerðirnar verði verkföllin samþykkt. Þetta er stórt verkefni og að mínu mati möguleiki að gera tímamótasamning og um leið að samtök sjómanna og útgerðin leggi sitt af mörkum til að tryggja frið um atvinnugreinina, frið sem verður að verða til.

Kv. Guðmundur Ragnarsson, formaður VM