28.7.2016

Kjarasamningur við SFS


VM hefur ekki skrifað undir kjarasamning við SFS og mun ekki verða tekin afstaða til þess fyrr en eftir fund samninganefndar vélstjóra á fiskiskipum 9. ágúst næstkomandi. Ástæða þess að VM skrifaði ekki undir með Sjómannasambandinu og FFSÍ, voru vinnubrögðin sem viðhöfð voru af hálfu SSÍ í aðdraganda samningsins sem þeir skrifuðu undir.

Að mínu mati er innihaldið ekkert, nema hækkanir á kaupliðum í takt við almennar launahækkanir. Ekki er tekið á neinu eða sérkröfur félaganna teknar til umræðu. VM er með kröfur um breytingar á uppsjávarskipum vegna fækkunar vélstjóra sem ekki fengust fram og ýmislegt annað.

Bókunin í samningnum er plagg sem allir sem komið hafa að gerð kjarasamninga vita að ekkert verður gert í af viti í þeim stóru málum sem þar eru undir á samningstímanum. Af hverju félögum okkar lá á að skrifa undir er mér ekki alveg ljóst en vinnubrögð SSÍ eru þau óheiðarlegustu sem ég hef upplifað fram að þessu við gerð kjarasamninga og óljóst hvernig hægt er að vinna með aðilum sem vinna svona. Annað hvort eru menn að vinna saman eða ekki. Það mun liggja fyrir eftir fund samninganefndar vélstjóra á fiskiskipum hvort VM kemur að þessari vinnu eða ekki.

Kv. Guðmundur Ragnarsson, formaður VM