5.4.2016

Er einhver von um breytingar?

Það er ekki í fyrsta skipti nú í íslensku samfélagi sem fer af stað umræða um óréttlæti og /eða spillingu eins og nú er vegna eigna sem faldar eru erlendis. Væntanlega í þeim eina tilgangi að losna undan því að greiða skatta af eignum eða tekjum af þeim. Undantekningarlaust hefur fjarað undan umræðunni og engin breyting orðið hér hjá okkur. Hverju svo sem um er að kenna.

Ég ætla ekki að leggja mat á málefni forsætisráðherra og hæfi hans. Mér dugar að hann hefur rekið pólitíska stefnu um að halda hér öllu föstu með dásamlegasta gjaldmiðli í heimi. Á sama tíma fer hann með fjölskylduauðinn í geymslu í öðrum gjaldmiðli. Af þessu má draga eina ályktun og hún er sú að hann hefur ekki mikið traust á þeim gjaldmiðli sem hann vill að við hin lifum með. Fyrir hvaða hagsmunaöfl er hann að vinna?

Það er ekki bara þetta mál sem endurspeglar spillinguna sem haldið er hlífðarskyldi yfir. Það væri hægt að halda langan fyrirlestur um alla þá málaflokka sem íslenskur almenningur þarf að greiða dýrum dómi fyrir vegna þess að ekki er tekið á þeim málum. Það skýrir að hluta hvers vegna okkur gengur illa að reka samfélagið eins og okkur langar að gera og gætum ef allir greiddu sína skatta og gjöld.

Kennitöluflakkið sem haldið er hlífðarskyldi yfir af núverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra kostar almenning milljarða króna á ári.

Skattayfirvöldum er haldið í lágmarki af mannafla til að hann geti ekki gengt skyldum sínum og náð í  milljarðatekjur fyrir ríkisjóð.

Í ferðaþjónustunni fljóta peningarnir um allt og of lítið skilar sér af þeim auði til samfélagsins.

Allt eftirlitskerfi er ónýtt svo svindl og svínarí viðgengst með ómældum kostnaði sem endar á almenningi, því enginn er ábyrgur ef tjónþoli reynir er að sækja rétt sinn og láta viðkomandi axla ábyrgð.

Nýja sjávarútvegsmafían selur sjálfum sér afurðir sjávarauðlindarinnar eftirlitslaust. Það gefur þeim möguleika á að koma heim með aðeins þann hluta sem hentar. Annað situr eftir erlendis og enginn veit hvað það eru háar upphæðir.

Bankakerfið virðist vera ríki í ríkinu og kemst upp með að sjúga eins mikið fjármagn út úr almenningi og atvinnulífinu eins og því þóknast.

Erlendu vinnuafli er leyft að streyma hér inn án eftirlits þó engin þjóð í Evrópu hafi eins góð lög og reglugerðir til að taka á þeim vanda.

Ef tekið væri á þessum málum þá værum við ekki að vandræðast með eitt stykki Landspítala. Hann yrði staðgreiddur, eins og sagt er.

Tveir auðmenn sem stjórna landinu og sennilega duga ráðherralaunin ekki nema upp í brot af þeim lífsstandard sem þeir hafa vanist á. Fyrir hvern hélt fólk að þeir væru að fara að vinna, þegar það kaus þessa einstaklinga?

Það er í sjálfum sér engum um að kenna nema okkur sjálfum, þetta er það sem við höfum kosið.
Oft er verið að vitna í tímabil Íslandssögunar þegar danska einokunarverslunin réð hér öllu og hvernig var farið með okkur Íslendinga þá. Ef horft er yfir söguna þá spyr maður sig hvort eitthvað hafi breyst. Reyndar er kóngurinn farinn en það tóku bara aðrir við sem eru verri, því þeir eru alltaf í felum.

Guðmundur Ragnarsson, formaður VM