12.2.2016

Mun ISAL-deilan setja SALEK í uppnám?

Til að ná fram vitrænum kjaraviðræðum í ISAL-deilunni lögðu stéttarfélögin fram tillögu, á síðasta fundi hjá Ríkissáttasemjara, um að kjarasamningur SA / Rio Tinto Alcan á Íslandi (ISAL) færi undir rammasamkomulag ASÍ og SA frá 27. október 2015.

Það er sjálfsögð og eðlileg krafa að fyrirtæki innan Samtaka atvinnulífsins fari öll sem eitt eftir þeirri stefnu sem samtökin hafa sett nafn sitt undir og starfað hefur verið eftir við gerð kjarasamninga að undanförnu. Ætli alþjóðlegur auðhringur að starfa á Íslandi þá verður hann að átta sig á því að hann verður að starfa eftir þeim leikreglum sem hér eru, en ekki samkvæmt eigin einræðistilburðum.

SA verður líka að átta sig á að verkalýðshreyfingin mun ekki vinna að gerð nýs vinnumarkaðsmódels, þar sem fyrirtæki geti haft val um að vera með eða ekki. EF SA gerir þeim ekki grein fyrir stöðunni og eins eftir hvaða leikreglum þeir verði að vinna sem hér starfa,  mun SALEK ekki verða að veruleika.

Ætlum við að láta erlendan auðhring stoppa tilraun til að koma á stöðugleika hér í efnahagsmálum og á vinnumarkaði?

Verktakan er fyrirsláttur

Það endalausa jarm sem hefur komið frá stjórnendum ISAL um að opna verði fyrir aukna verktöku, er eingöngu fyrirsláttur sem þeir nota til að koma í veg fyrir að gera kjarasamning.

Ég hef áður kallað eftir því í pistlum mínum að almennt launafólk átti sig á stöðunni í ISAL og um hvað deilan þar snýst. Þarna er starfsfólk að berjast við auðhring sem ætlar að keyra niður laun og fækka starfsfólki eins og hann kemst upp með og mögulega getur. Ýmsum brögðum hefur verið beitt. Til dæmis hótunum um að  verksmiðjunni verði lokað ef farið yrði í ótímabundna vinnustöðvun. Allar tilraunir stéttarfélaganna til að koma til móts við fyrirtækið  til að gera kjarasamning, hefur verið svarað með nýjum kröfum, kröfum sem torvelda lausn deilunnar.

Sá ætlar ekki að semja

Sá sem hagar sér svona í kjaraviðræðum er ekki að leita leiða til að semja, hann ætlar ekki að semja. Hver sem ástæðan er.

Við sem samfélag verðum að standa í fæturna og hafna að ofsagróði auðhringanna eigi að ganga fyrir. Svona fyrirtæki verður að sýna samfélagslega ábyrgð vilji það starfa hér og borga góð laun. Það hefur margoft verið farið yfir það í fjölmiðlum hvernig linkind og kjarkleysi íslenskra alþingismanna hefur skapað þessum fyrirtækjum leiðir til að þurfa ekki að greiða eðlilega skatta og gjöld af hagnaði sínum hér og tryggt þeim hagstætt orkuverð. Ef á að keyra launin niður líka, þá er  lítill ávinningur eftir fyrir okkur sem samfélag, að hafa svona fyrirtæki hér á landi. Við verðum að kalla eftir samfélagslegri ábyrgð og hugsun frá þessum alþjóðaauðhringi.

Við munum standa af okkur lokun verksmiðjunnar, velji auðhringurinn að fara þá leið. Það kemur eitthvað annað í staðinn.

Nú stefnir í aðgerðir

Ég skora á allt íslenskt launafólk að sýna starfsmönnum ISAL  stuðning sinn með öllum ráðum í baráttu þeirra við alþjóðaauðhringinn, Rio Tinto Alcan. Nú stefnir í aðgerðir og jafnvel í alsherjarverkfall í lok þeirra aðgerða sem fyrirhugaðar eru. Ef við náum ekki að stöðva aðförina að okkur í ISAL, munu önnur fyrirtæki fara sömu leið. Þá munum við verða ódýrt vinnuafl í augum auðhringa og erlendra fyrirtækja til að skaffa þeim meiri gróða í framtíðinni. Er það framtíðarsýn sem við viljum fyrir íslenskt samfélag?

Guðmundur Ragnarsson, formaður VM.