28.1.2014

Hvað er framundan?

Niðurstaða kosningar um kjarasamninga VM á almenna vinnumarkaðnum undirstrikar óánægju félagsmanna VM um launakjör í vél- og málmtæknigreinum. Þrátt fyrir að þátttakan hafi verið léleg í kosningunni þá er þetta lýðræðisleg niðurstað. Ég tel að margir hafi samþykkt samninginn vegna væntinga um að ný vinnubrögð yrðu tekin upp í aðfarasamningnum, ekki vegna launahækkananna. Við munum ekki hvika frá kröfum okkar um sjálfstæða atvinnugreinakjarasamninga í okkar greinum. Við verðum að koma með nýja og öðruvísi hugsun inn í gerða kjarasamninga, með beinum viðræðum við atvinnurekendur í viðkomandi greinum. Komast út úr prósentum og krónutölum óháð stöðu atvinnugreina. Við verðum að gefa atvinnugreinum möguleika á að lyfta gólfinu í launatöxtum og finna leiðir til aukinnar framlegðar og laða til sín ungt fólk. Með því að hækka dagvinnulaunataxtana náum við vonandi að komast út úr viðveru og tímaskriftarvítahringnum. Dagvinnulaun hjá 5 ára sveini í vél- og málmtæknigreinum eiga að vera um 470.000 kr. á mánuði. Ég fullyrði að þessu er hægt að ná fram með hagræðingu, á því munu allir græða. Við verðum að stoppa kennitöluflakk, því þeir sem það stunda eru að skaða uppbyggingu alvöru fyrirtækja, halda kjörunum niðri og valda atvinnugreinum og samfélaginu ómældu tjóni. Það má hinsvegar ekki rugla saman launahækkunum og ábata vegna aukinnar framlegðar og hagræðingar. Það er orðin sannfæring mín að ef við ætlum að leggja af stað með lágar launahækkanir á vinnumarkaðnum til að tryggja stöðuleika þá verði þær að vera verðtryggðar þar til árangurinn fer að nást og byggst hefur upp traust milli aðilla.
Tími samræmdar launastefnu er liðinn. VM  tók vissulega þátt í að skrifa undir aðfarasamninginn sem var felldur. Það var ekki vegna launahækkananna sem í honum voru, heldur þau nýju vinnubrögð sem félagið bindur miklar vonir við að geti skilað félagsmönnum VM bættum kjörum.
Niðurstaðan sýnir okkur líka að fyrirkomulag stéttarfélaga á Íslandi er löngu orðið úrelt og vinnur félagsmönnum í þessum greinum tjón með því að vera dreifðir um allt í litlum stéttarfélögum.
VM er með um 85 til 90 prósent þeirra sem starfa í vél og málmtækni. Ef við ætlum að ná bættum kjörum í þessum greinum verður það ekki gert nema með einum öflugu landsfélag í vél- og málmtækni þar sem við getum barist sameiginlega og náð árangri.

Við munum funda með samninganefndum og félagsmönnum til að átta okkur á stöðunni og hver okkar næstu skref verða, það skýrist vonandi sem fyrst.

Það vantraust sem ríkir í samfélaginu gagnvart öllu undirstrikar það að tilraun ASÍ um að framkvæma framfaraskref í átt að stöðuleika verður ekki farin nema allir verði með í þeirri vegferð. Það verða allir að axla ábyrgð á þeirri vegferð en ekki bara sumir. Stöðuleiki næst ekki með innihaldslausum loforðapökkum.
Ef stjórnvöld eru ekki tilbúin til að setja stafina sína undir sameiginlega vegferð til þess að ná stöðuleika sem og önnur stéttarfélög og sambönd, verðu að bíða með næstu tilraun þar til allir eru tilbúnir í hana. Ég varaði við því að svona færi kæmu ekki allir ábyrgt að borðinu. Það var ekki hægt að selja innihaldslausan pakka í þriðja skiptið með óskýra framtíðarsýn. Það tókst 2009 og 2011 vegna þess að þá voru launahækkanirnar hærri.
 
Guðmundur Ragnarsson, formaður VM