22.10.2013

Mönnunarnefnd og stjórnsýslan.

Eftir síðasta fund í mönnunarnefnd skipa sl. föstudag verður maður mjög hugsi um íslenska stjórnsýslu almennt. Formaður mönnunarnefndar hunsar allt sem heitir eðlileg stjórnsýsla með einræðistilburðum. Innanríkisráðuneytið hefur afturkallað síðustu úrskurði formannsins og LÍÚ eftir kærur frá VM vegna þeirra vinnubragða sem þar eru stunduð.

Ég velti því fyrir mér hvern formaðurinn er að vinna fyrir, þar sem ítrekað hafa verið athugasemdir í úrskurði ráðuneytisins um að fráviksheimildir mönnunarnefndar uppfylli ekki þau faglegu vinnubrögð, sem þurfa að liggja að baki við ákvörðun um frávik frá mönnun fiskiskipa. Fjórum sinnum hefur VM kært fráviksheimild mönnunarnefndar og í öll skiptin hefur ráðuneytið fellt úr gildi ákvörðun mönnunarnefndar, vegna ófaglegra vinnubraga.
Í þessum fjórum úrskurðum hefur ráðuneytið þurft að afturkalla ákvörðun nefndarinnar tvisvar á sama skipið. Með síðari úrskurðinum á Brimnesið RE -027 fékkst embættismaður stofnunarinnar til að færa fráviksheimildina úr bókum stofnunarinnar.
Úrskurðir ráðuneytisins voru svohljóðandi:  ´´Felld er úr gildi ákvörðun mönnunarnefndar skipa frá 15. júní 2012 um að heimila fækkun vélstjóra á Brimnesi RE-027( úrskurður númer tvö), Heimaey VE-001 og Berki NK-122. þannig að tveir vélstjórar verði í áhöfn, yfirvélstjóri og 1. vélstjóri.´´
Í úrskurðinum kemur einnig fram að ´´ráðuneytið biðst afsökunar á því að vegna mikilla anna í ráðuneytinu hafi úrskurður dregist og beðist velvirðingar á því´´.
Það er ástæðan fyrir því að þessi mál ganga allt of hægt fyrir sig og umbjóðendur formanns mönnunarnefndar, njóta þess að málin dragist.
Fyrirsláttur formannsins um að frávik frá Heimaey og Berki verði ekki afturkölluð vegna þess að fyrst var frávikið heimila í sex mánuði sem VM kærði og það síðan framlengt endanlega í desember 2012. Eina sem breyttist var að útgerðin samdi plagg og lét skipstjórana og vélstjórana skrifa undir, að í lagi væri að hafa tvo vélstjóra. Hver skrifar ekki undir það í svona plássum? Það breytir ekki forsendum ráðuneytisins varðandi vinnubrögðin sem  það er að kalla eftir. Engin fagleg vinna eða rannsókn hefur farið fram eins og lög kveða á um. Formaðurinn hélt spjallfund sem átti að vera ígildi rannsóknar um borð í Brimnesinu hvernig gengið hefði að vera með 2. vélstjóra, þar sem alltaf hafa verið þrír vélstjórar. Þegar honum varð það ljóst, fór hann yfir í það að ásættanleg mönnun væri að hafa tvo af þrem vélstjórum með vélstjóramenntun, sjálfsagt telur hann sig hafa völd til að ákveða það. Hversvegna embættismaður Siglingarstofnunar fer ekki eftir úrskurði ráðuneytisins varðandi Heimaey og Börk eru ósættanleg  vinnubrögð.
Auk þessara vinnubragða er formaðurinn í samvinnu við LÍÚ að hjálpa útgerðum að lækka launakostnað, með því að heimila frávik frá mönnun vélstjóra og stýrimanna án þess að verið sé að fækka í áhöfn skipanna. Það var ekki hugsunin varðandi frávikið í lögunum.
Annað sem snýr að stjórnsýslu Siglingastofnunar er skráning vélarafls. VM hefur margoft bent forstöðumanni þar á tiltekið skip sem skráð er með  540 kW aðalvél. Samkvæmt því sem ég hef aflað mér upplýsinga um er aðalvélin 1520 kW samkvæmt gögnum flokkunarfélagsins, einnig er hægt að keyra afl frá hjálparvél inn á framdrifsafl skrúfu. Þetta skip er með búnað til að draga tvö troll þannig að 540 kW hljóta að vera frekar tæp. Forstöðumaðurinn ber því við að hann fái ekki gögn frá útgerðinni. Ég hefði haldið að það væri auðvelt fyrir stofnunina að neita viðkomandi útgerð um haffærniskírteini nema hún útvegi öll þau gögn sem stofnunin óskar eftir til að allt sé löglegt.  Með það veiðihólfa fyrirkomulag sem enn er við líði með suðurströnd Íslands kemur upp sú spurning hvort þetta viðkomandi skip og fleiri sem eru rangt skráð hjá stofnunni yrði ekki bannað að stunda veiðar á þessum svæðum. Er LÍÚ með þessa stofnun í algerlega í vasanum eins og margt annað í þessu samfélagi?
Ég fór ásamt lögmanni félagsins í febrúar á fund þáverandi ráðherra og kvartaði undan vinnubrögðum formanns mönnunarnefndar, eftir það komu úrskurðirnir. Nú hef ég skrifað bréf og pantað tíma hjá  núverandi ráðherra, vegna anna ráðherra hef ég fengið fund með embættismönnum ráðuneytisins. Það væri furðulegt ef VM þyrfti að kæra fráviksheimild  mönnunarnefndar á Heimaey og Berki aftur, þar sem engin frekari gögn hafa komið fram varðandi það sem ráðuneytið byggir úrskurð sinn á  um að afturkalla ákvarðanir mönnunarnefndar skipa.

Guðmundur Ragnarsson, formaður VM